4. sd. eftir þrenningarhátíð
Lexía: Jer 7.1-7
Pistill: Róm 14.7-13
Guðspjall: Lúk 6.36-42
Kæri söfnuður.
Ég heilsa ykkur með orðum Páls postula:
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ég kom af Jakobsvegi fyrir viku síðan þar sem ég gekk 300 km með 37 öðrum konum. Sumar þeirra höfðu ekki gert sér ljóst hve mikið álag það er að ganga 25-30 km. dag eftir dag 12 daga í röð.
Þær höfðu með öðrum orðum vanmetið álagið.
Við sem leiddum þetta ferðalag þurftum því sífellt að vera að minna konurnar á að sýna sjálfum sér miskunnsemi og mildi en ekki hörku og miskunnarleysi, því þær voru sumar við það að ganga fram af sér.
Sigur þeirra sumra var einmitt fólginn í því að þær mættu sýna sjálfum sér meiri mildi.
Aðrar konur komu sjálfum sér á óvart þegar þær uppgötvuðu um hvað þær voru færar.
En þegar upp var staðið efldust þær allar á göngunni.
Ritningarlestrar og guðspjall dagsins í dag sýna okkur svart á hvítu að mannlegt eðli er samt við sig óháð ytri framförum á svo fjölmörgum sviðum mannlífsins, í dag sem í fornöld.
Á meðan lesturinn úr Jeremía hefur réttlætið en þó aðallega skortinn á því til umfjöllunar, beina pálsbréfið og guðspjallið spjótum sínum að dómhörku og hræsni mannsins.
Ég hygg að það væri góð hugmynd að hefja sérhvern dag á því að lesa guðspjall dagsins, en því miður er dómharka, miskunnarleysi og hræsni áberandi í mannheimum. Það má sjá hvert sem litið er. Og oft dæmir maður hart án þess að vita alla málavexti.
Verði manni á að líta á kommentakerfi samfélagsmiða má líkja því við iðandi ormagryfju, því þau eru því miður mörg sem láta refsigleði og fordæmingu vísa sér leið og tala mest í fúkyrðum. Það fólk mætti gjarnan hafa eftirfarandi í huga áður en það bregður fingrum á lyklaborðið: „Með þeim mæli sem þér mælið, mun þér aftur mælt verða.“
Það fólk mun kannski seint skilja hversu mikilvægt það er að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig. Engu að síður hygg ég að það væri gott ef það fólk fengi að heyra þau orð oftar.
Dómstóll götunnar kveður á hverjum degi upp dóma sína og þar er enginn miskunn sýnd. Þar virðist vera nóg að viðhafa nafnakall.
Og svo er hinn sami miskunnarlaust dæmdur sekur og úthrópaður.
Vitaskuld þurfa þau sem hafa brotið af sér að taka afleiðingum gerða sinna og sæta ábyrgð, en dómstóll götunnar bendir í allar áttir og hirðir lítt um það hvort saklaust fólk lendir í hópi brotamanna.
Sannleikurinn er sá að dómstóll götunnar er ekki sá besti til að komast að sekt eða sakleysi, en til þess höfum við sérstaka dómstóla sem skulu fara að lögum og frammi fyrir þeim skulu allir standa jafnt. En það er einmitt það sem gerir samfélagið siðað.
Ef við sjálf gerum okkur hins vegar sek um það að verða á, gera einhver mistök sem við jafnvel sjáum eftir er ekki ósennilegt að við mætum mikilli dómhörku annarra. Við þær kringumstæður finnum við fyrir því hve sársaukafullt og þungbært það er þegar aðrir dæma okkur hart.
Miskunnsemi, mildi og fyrirgefning eru lykilhugtök í kristinni trú. Þessi hugtök árétta þá lífssýn að allir eigi sér von.
Hún birtir einnig þá sýn að erfðasyndin elti manninn, en iðrun og yfirbót geri honum kleift að takast á við og lifa með breyskleikum sínum.
Páll postuli orðar þetta vel þegar hann ritar: Það góða sem ég vil gjöri ég ekki, en það vonda sem ég ekki vil, það gjöri ég.
Viskuorð Krists í guðspjallinu eru áminning til okkar um það hve mikilvægt það er að ala með sér mildi, miskunnsemi og fúsleika til að leita fyrirgefninar og sátta. Ekki aðeins í garð annarra heldur einnig í eigin garð.
Oft erum við nefnilega hörðustu dómarar okkar sjálfra og eigum erfiðast með að fyrirgefa eigin mistök.
Það eru til yndisleg viskuorð eftir
Dorothy Holtes – í þýðingu Helga Hálfdánarsonar — um það að barn læri það sem fyrir því er haft. Og óhætt er að segja að þessi orð láti engan ósnortinn. Þar kemur m.a. fram að:
Það barn sem býr við hnjóð - læri að fordæma. En það barn sem búi við mildi - læri þolgæði.
Samfélag sem einkennist af mildi í stað hörku er miklu fremur til þess fallið að ala upp fólk sem sýnir heilindi og vilja til að vera sjálfu sér samkvæmt en ekki stútfullt af hræsni.
Myndmálið um flísina og bjálkann er skemmtilega súrrealískt og vel til þess fallið að sérhvert mannsbarn skilur hvað Kristur er að fara með dæmisögunni. Og hið tvöfalda siðgæði verður okkur morgunljóst. Þ.e.a.s. sú staðreynd að við metum hlutina öðru vísi ef þeir snerta okkur sjálf.
Því getur enginn verið dómari í eigin sök. Því þeir dómar eru ekki réttlátir.
Það er ekki hending að í grískri goðafræði er bundið fyrir augu réttlætisgyðjunnar og það er að gefnu tilefni, svo hún láti það ekki trufla sig um hvern ræðir.
Því sennilega er staðreynd málsins sú að við mennirnir höfum flest valkvæða sjón!
Réttlæti er magnþrungið orð og mikið notað og kannski erfitt oft og tíðum að átta sig á hvað er verið að meina með því. Það er mikið talað um félagslegt réttlæti og þá í samhengi umræðu um jöfnuð og ójöfnuð í samfélaginu, misskiptingu og fátækt.
Í lexíu dagsins fær Jeremía spámaður það verkefni að brýna landsmenn til þess að iðka réttlæti.
En oft gerir fólk ekki skarpan greinarmun á réttlæti og hefnd.
Til forna var dæmdum mönnum kastað fyrir ljónin. Við það voru örlög þeirra ráðin.
Menn voru líka teknir af lífi án dóms og laga eða þá að embættismann valdsins hundsuðu réttlætið og engum vörnum var við komið. Fræg eru orð Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni er hann segir: „Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti.“ Það birtir glöggt valdníðslu þeirra sem höfðu vald með höndum.
Við komum auga á og þekkjum ofsann sem sagan birtir okkur. Í því samhengi má nefna nornaveiðar og galdrabrennur, en því miður taka þær á sig nýjar myndir og enn dæmum við fólk á götum úti sem fær engum vörnum við komið.
Þess vegna eiga orð Krists við enn þann dag í dag:
Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?
Það væri farsælla ef við sem samfélag og hvert og eitt myndum beina sjónum okkar í ríkara mæli að bjálkanum í eigin auga en flísinni í auga bróður okkar.
Það myndi ýta undir meiri miskunnsemi og mildi og hjálpsemi í okkar samfélagi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum alda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.