Annar í páskum

Lexía: Slm 16.8-11.
Pistill: 1Pét 1. 3-9
Guðspjall: Jóh 20.11-18


Kæri söfnuður.

Ég heilsa ykkur með orðum postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Það var ekki gleði í huga lærisveinanna morguninn þegar María Magdalena gekk út að gröfinni til að vitja um lík leiðtoga síns. Líklega hafa þau vinirnir vaknað hinn fyrsta páskadag full af ótta og skelfingu yfir því sem gerst hafði á föstudaginn langa.

Ekki er ólíklegt að þau hafi látið lítið fyrir sér fara, enda vissu þau ekki hvað yrði og ekki ósennilegt að þau hafi haft áhyggjur af því að jafnvel þau sjálf yrðu fangelsuð og jafnvel tekin af lífi.

 

Þótt María sé döpur í bragði gengur hún engu að síður út að gröfinni í þeim tilgangi að búa um líkið og smyrja það með ilmsmyrslum, eins og venja var til.

 

Örvænting hennar verður enn meiri þegar hún finnur ekki líkið. Guðspjallstextinn ýtir undir tilfinningu okkar fyrir því að María átti alls ekki von á því að mæta Jesú upprisnum við gröfina, enda ruglar hún honum saman við grasgarðsvörðinn.

  

En hið óvænta sem allir sorgmæddir þrá gerist - og páskasólin skín við henni og þarna við gröfina eignast hún nýja von.  

Kristur er  upprisinn!

  

Þar sem lækir fleygjast

hvítum vængjum

ofan hlíðina

gegnt upprisu dagsins

drúpi ég höfði

einn með sorg minni og þrá

trúin á regnbogann

byrgð undir hellu

sem enginn morgunn fær lyft.

 

En magn jarðar

finn ég undir fótum mér

finn ég í brjósti

taugar, slagæðar, líf,

mátt upprunans

sem rofið gæti steininn,

vakið nýtt líf,

nýja trú.

 

Og á flötinni þarna

undir sólroðnum trjánum

grasgarðsvörðurinn.

 

Þannig yrkir skáldið frá Arnarholti, Snorri Hjartarson, í ljóði sínu „Dögun“ og tjáir sorg og þrá sem tekst á við von og trú.

Páskahugvekja í okkar samtíma.

 

Ný birta skín inn í myrkur grafarinnar þar sem ekkert líf er, ný von kviknar með óttaslegnum lærisveinunum.  Páskasólin skín og kallast á við sköpunarsöguna í fyrstu Mósebók þar sem Guð skapaði heiminn og sagði: Verði ljós!

 

Páskarnir eru hátíð hins óvænta og nýja.

Enda er það eini morgunn ársins sem meginþorri barna borðar súkkulaði í morgunmat og enginn gerir athugasemd við það! 

Boðskapur dymbilviku og páska er nefnilega sá:  „að sá hlær best sem síðast hlær“. Á föstudaginn langa leit út fyrir að hatrið og óréttlætið hefði betur. En páskadagurinn átti eftir að leiða annað í ljós þegar María Magdalena gekk út að gröfinni og talaði við englana tvo.

Boðskapur páskanna er vonarboðskapur. Boðskapur um það að kærleikurinn sé sterkari en hatrið. Að samstaðan sé sterkari en sundrungin að lífið sé sterkari en dauðinn!

 

Það er því ekki að undra þótt dagarnir frá páskum fram að hvítasunnu séu kallaðir gleðidagarnir í kirkjuhefðinni. Enda er rík ástæða til að gleðjast yfir, sigri lífsins yfir dauðanum.

Já, upprisan er staðreynd, dagatalið segir meira að segja að sumarið sé á næsta leiti, það komi á fimmtudaginn.

Já það er sannarlega ástæða til að gleðjast og fagna!

 

Í bókinni um gleðina sem allir ættu að lesa, greinir frá samtali og samveru vinanna Dalai Lama og Desmond Tutu.

 

Enda þótt þeir komi úr gjörólíkum áttum og ólíku trúarlegu samhengi eru þeir sammála um ótalmargt. Munkurinn frá Tíbet segir að samhygð og umhyggja fyrir velferð annarra sé uppspretta hamingjunnar og Desmond Tutu tekur í saman streng. Hann telur að við mennirnir verðum glöðust ef við leitumst við að gera öðrum gott.

Og þeir eru á einu máli um það að gleðin byggi bæði á hugarfari og hartalagi og sé í raun ákvörðun hvers og eins.

 

Þeir eru jafnframt  sammála um að fólk geti verið glatt þrátt fyrir þjáningar og sorgir heimsins en þeir telja báðir að samkennd með öðrum sé nauðsynleg forsenda gleðinnar.

 

Afstaða þessara vitru manna gæti verið okkur umhugsunarefni á næstu vikum á meðan gleðidagarnir standa yfir.  

Ef  við beinum sjónum okkar að því sem ánægjulegt er í lífi okkar og gengur vel og gleymum ekki að vera þakklát fyrir það, kveikir það vafalaust með okkur ýmsar jákvæðar tilfinningar sem ýta undir gleðina.

 

Þjóðtrúin segir er að sólin dansi á páskadagsmorgun og jafnvel þótt hún hafi dansað á bak við skýin í gærmorgun þá hvetur hún okkur engu að síður til nýrra verka. Hún hvetur okkur til að leggja mikið í sölurnar fyrir þann dýrmæta málstað sem þeir snúast um.

Litli hópurinn í Jerúsalem sem beið í ótta og örvæntingu á bak við læstar dyr á páskadagsmorgni, var kallaður til nýs hlutverks. Og það hlutverk er að skapa samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Þangað sem aðgangur er öllum opinn, háum sem lágum, gyðingum og grikkjum. Hér er ekki gerður greinarmunur á konum og körlum eða kynþáttum.

Gleði páskanna er fólgin í lífsafstöðu þar sem við lærum að njóta þess einfalda í tilverunni og að skynja návist Guðs í lífinu sjálfu.

 

Boðskapur páskanna hvetur okkur til að leggjast á sveif með þeim skapandi öflum sem spruttu upp úr þeim jarðvegi sem Jesús plægði.

Páskaboðskapurinn kallar okkur til að leggja okkur fram um að vera heiðarlegar og heilsteyptar manneskjur, láta okkur varða um þau sem eiga erfitt og standa höllum fæti, rækta með okkur gleði og þakklæti fyrir allt sem lífið hefur upp á að bjóða, en temja okkur líka virðingu og hófsemi fyrir verðmætum og auðæfum jarðarinnar svo komandi kynslóðir geti lifað innihaldsríku og góðu lífi í framtíðinni.

 

María Magdalena gekk grátandi út að gröfinni snemma á páskadagsmorgni og fann ekki lík Jesú heldur tvo engla sem spyrja: Kona, hví grætur þú? Og svo spyr Jesús hana að því sama.

Kona, hví grætur þú?

Í dag getum við þurrkað burtu tárin, því það er ekki ástæða til að gráta, við megum brosa framan í daginn og ganga héðan úr kirkjunni í dag með brjóstið fullt af von og gleði, því sannleikurinn er sá að Herrann lifir!

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Forrige
Forrige

6. sd. eftir þrenningarhátíð

Neste
Neste

4. sd. eftir þrenningarhátíð