Ég er fædd í Reykjavík 21. desember 1968, önnur í röð fimm systkina. Foreldrar mínir eru Hallgerður Gunnarsdóttir og  Sturla Böðvarsson. Þau eru bæði fædd og uppalin á Snæfellsnesi en sjálf er ég alin upp í Hólminum. Þegar ég var 15 ára hleypti ég heimdraganum, eins og önnur landsbyggðarbörn þess tíma, sem ekki höfðu aðgang að framhaldsskóla í heimabyggð.

Ég lauk stúdentsprófi frá MR, fór til Frakklands að læra frönsku eftir stúdentspróf, innritaðist svo í heimspeki við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi í þeirri grein og síðar kandídatsprófi í guðfræði.

Frá barnæsku hef ég verið virk í félagsmálum, ég sat í stúdentaráði og stjórn þess, átti sæti í stjórn Soffíu félags heimspekinema og hef bæði verið varaformaður Prestafélagsins sem og kjarafulltrúi þess. Ég hef setið í stjórn siðfræðistofnunar Háskóla Íslands sl. átta ár. Um árabil sat ég í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar. Ég sit í handbókarnefnd og umhverfisnefnd kirkjunnar og er fulltrúi vígðra á Kirkjuþingi. Ég var í nokkur ár í héraðsnefnd Vesturlandsprófastsdæmis og nú er ég í héraðsnefnd í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Ég er gift Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni, héraðspresti í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og aðjúnkt við Guðfræðideild HÍ. Meðan hann var í doktorsnámi bjuggum við fjölskyldan í þrjú ár í Þýskalandi. Við eigum þrjú börn á aldrinum 16-26 ára. Hallgerði Kolbrúnu blaðamann, Sturlu háskólanema og Kolbein Högna, nemanda í Versló.

Fyrir rúmlega 20 árum vígðist ég til Setbergsprestakalls í Grundarfirði og var svo sveitaprestur í Stafholti í Borgarfirði í 10 ár. Síðustu fimm ár hef ég þjónað sem dómkirkjuprestur í Reykjavík.

Ég hef stundað framhaldsnámi í sálgæslu, heimspeki og guðfræði og hefur ástríða mín fyrst og fremst verið á sviði pílagrímaguðfræði og umhverfismála. Ég stóð fyrir pílagrímagöngum á milli kirkna meðan ég þjónaði í Stafholti og í kjölfar þess var áhugamannafélagið Pílagrímar stofnað en það hefur stikað og merkt pílagrímaleið frá Bæ í Borgarfirði í Skálholt og staðið fyrir göngum í á Skálholtshátíð í meira en áratug. Ég hef einnig verið virk í samstarfi pílagrímapresta á Norðurlöndum og leitt fjölmarga hópa um hinn þekkta  Jakobsveg á Spáni.