4. sd. í aðventu
Lexía: Jes 52.7-10
Pistill: Fil 4.4-7
Guðspjall: Jóh 1.19-28
Kæri söfnuður.
Ég heilsa ykkur með kveðjur postulans.
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
Amen.
Síðustu dagana fyrir jól ríkir mikil eftirvænting í samfélaginu. Maður finnur hvernig tilhlökkunin eykst dag frá degi.
Það er eftirtektarvert að ritningarlestrarnir úr Biblíunni endurspegla einmitt þetta. Það ríkir eftirvænting og gleði. Við erum alveg að fara að upplifa stóru stundina.
„Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, og gleðitíðindin flytur“
Maður sér fyrir sér þennan léttstíga fagnaðarboða og þessa yndislegu fætur sem fara svo hratt yfir af því að það er verið að flytja svo góð tíðindi. Og þegar maður fer með góð tíðindi þá verða hlaupin létt.
og svo er annar texti sem er lesinn í vikunni fyrir jól svona:
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. “
Það er nú yfirleitt þannig að það sem við erum að gera dagana fyrir jólin er til þess fallið að ýta undir gleðina, a.m.k þegar hápunktur jólanna gengur í garð.
Svona yrkir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Ljós verður til
hvelfing full af birtu
himinn settur stjörnum
bros við fyrstu sýn.
Krýp á lágum stalli
kann þessa einu bæn:
Kom engill til mín!
Ljós brennur hægt
snævi þakin jörðin
snerting tveggja handa
landið bíður þín.
Kunnugleg er einnig
kyrrðin sem færist nær;
Kom engill til mín.
Ljós vakir enn
stjarna yfir vegi
steinsnar inn í nótt
tungl í austri skín
Blik af nýjum tíma
barn hvíslar undur lágt:
Kom engill til mín!
Þegar kirkjuklukkurnar hafa hring kl. sex á aðfangadagskvöld er sagt að þá sé orðið heilagt. Þá þarf ekki að gera neitt meir. Flestir hafa verið önnum kafnir allan daginn en svo rennur stundin upp og ekki hægt að gera neitt meir, nema það að opna hjarta sitt fyrir því að engillinn geti komið til okkar, að jólagleði og friður taki sér bólstað innra með okkur, í hjartanu.
Þetta er augnablikið sem er svo viðkvæmt því væntingarnar eru svo miklar.
Hefur einhver hér lent í því
á aðfangadagskvöld að steikin varð of þurr, eða sósan skildi sig, eða gasið á eldavélinni kláraðist og ekki búið að klára að sjóða kartöflurnar og gera sósuna? Hafiði kannski lent í því að fjölskyldan var ekki fyrr sest að borðum en yngsta barnið hellti heilu glasi af jólaöli á drifhvítan nýstraujaðan Georg Jensen dúkinn?
Þetta eru senur heiman frá mér frá jólahaldi síðustu 24 ár.
Maður getur látið svona uppákomur eyðileggja fyrir sér jólin, en við höfum líka val um að sjá að jólin snúast um svo miklu miklu meira en þetta.
Í mínum huga snýst jólagleðin öðrum þræði um það að finna frið í hjartanu, frið sem engillinn er táknmynd um og mislukkaður matur, fyrirferðarmiklir krakkar eða tímabundið mótlæti á ekki að fá að taka frá okkur.
Til er saga af því að þegar nokkrir hermenn hófu upp raust sína og fóru að syngja jólasálma á vígstöðvunum um jólin 1914 og ómurinn af söngnum barst yfir víglínuna og stríðandi fylkingar sungu saman, hver á sínu móðurmáli og ekki nóg með það heldur mættust þeir á einskis manns landinu og skiptust á óskum um gleðileg jól. þeir „héldu jól“ ef svo mætti að orði komast.
Þessi saga er vitnisburður um að jafnvel í mjög svo erfiðum aðstæðum lífsins getur maður líka fundið til jólagleði. Meira að segja á vígvellinum.
Saga jólanna, af parinu unga sem átti ekki annarra kosta völ en að hlýða boðum keisarans enda þótt tímasetningin væri afar óhentug fyrir þau og svo lentu þau þar ofan í kaupið á hrakhólum í Betlehem, þessi saga er margslungin.
Andspænis hervaldinu voru þau algerlega valdalaus.
En sagan segir okkur að jafnvel í valdaleysinu er von og hún segir okkur líka að kærleikurinn er sterkari en illskan.
Og á aðfangadagskvöld þegar við syngjum um að í Betlehem sé barn oss fætt og við fáum enn og aftur að slást í hóp með hirðunum og standa við jötuna í fjárhúsunum og horfa í átt til ljóssins sem skín þar í myrkrinu, það er einmitt þá, á því augnabliki sem við höfum val um það hvort við reifum líf okkar hlýju, eða reiði og hatri.
Því jólabarnið kallar okkur til að hlúa að kærleika, friði, og fegurð.
Jólastjarnan skín nefnilega ekki bara í gluggunum okkar heldur skín hún jafnfram í brjóstum mannanna.
Og enda þótt trú okkar sé veik og við vitum ekki alltaf hvaða slóð við ættum að feta, þá leiðir stjarnan okkur áfram, rétt eins og hún vísaði vitringunum að jötunni forðum og minnir okkur á, að dýpst í hjartanu vitum við hvað er gott og rétt, satt og fagurt.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól!