Preststarf í sjávarþorpi 2003-2008

Ég vígðist til Grundarfjarðar árið 2003. Það voru mikil umskipti að koma þangað beina leið frá háskólaborginni Freiburg í Þýskalandi þar sem eiginmaður minn Jón Ásgeir Sigurvinsson var í doktorsnámi.

Ég var svolítið kvíðin fyrir því að takast á við það verkefni að vera presturinn í plássinu en sá kvíði gufaði fljótt upp því Grundfirðingar tóku okkur vel og studdu á alla lund.

Vinátta, þakklæti og umhyggja einkenndi samfélagið í Grundarfirði og það voru forréttindi að  fá að starfa í samfélagi þar sem velvilji í garð kirkjunnar var mikill.

Það er mikilvægt að huga að því að í dreibýlinu er yfirleitt ekki annað launað starfsfólk en presturinn og því reynir á að hann sýni frumkvæði, vilja og vinnusemi.

Í Grundarfirði var blómlegt barnastarf, kirkjuskóli, 10-12 ára starf, fermingarstarf, foreldramorgnar sem og reglubundið helgihald, bæði á gamla kirkjustaðnum á Setbergi í Eyrarsveit sem og í Grundarfjarðarkirkju. Þá var þjónusta við íbúa Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls sjálfsagður hluti af þjónustu prestsins. Kórastarfið í kirkjunni var öflugt og þar rann upp fyrir mér hve dýrmæt samfélagsþjónusta það er sem kirkjukórarnir inna af hendi vítt og breitt um landið. Það er nefnilega mikil skuldbinding að syngja í kirkjukór og það getur tekið á að syngja yfir samferðafólki sínu og vinum við útfarir. Grundfirðingar voru góðir „uppalendur“ fyrir ungan prest. Landsbyggðarkirkjan er víða mjög sterk, ekki síst við sjávarsíðuna og í Grundarfirði var litið til kirkjunnar sem mikilvægrar stoðar í samfélaginu. Samstarf stofnana var náið og sterkt og  sem dæmi um það er áfallateymi sem var samstarfsverkefni heilsugæslunnar, lögreglunnar, skólayfirvalda og kirkjunnar. Þetta teymi reyndist afar vel þegar áföll dundu yfir samfélagið.

Grundarfjarðarkirkja

Kirkjukór Grundarfjarðarkirkju

Barnakórinn í Grundarfjarðarkirkju

Sveitaprestur 2008-2018

Ég hafði alltaf átt mér þann draum að vera prestur í sveit.

Það var fjölmenni sem sótti um Stafholt í Borgarfirði vorið 2008 og hreppti ég brauðið.   Aðstæðurnar þar voru gjörólíkar því sem ég hafði kynnst í Grundarfirði. Ég gat ekki lengur sinnt sóknarbörnum mínum fótgangandi heldur var nauðsynlegt að eiga góðan bíl til að bruna um héraðið. Í Stafholtsprestakalli eru þrjár sóknir. Ég var því ekki lengur í samvinnu og samstarfi við eina sóknarnefnd heldur þrjár. Sóknarkirkjurnar eru líka þrjár; Hvammskirkja í Norðurárdal, Norðtungukirkja í Þverárhlíð og Stafholtskirkja. Þegar ég kom í Stafholt var heilmikið þorp á Bifröst og þar bjó margt ungt fólk með börn. Það var því viðbúið að hlúa þyrfti að barna-og æskulýðsstarfi þar og sinna sálgæslu við fólkið sem bjó á Bifröst. Ég var eins og áður afskaplega lánsöm með samstarfsfólk sem var boðið og búið að skapa mér góðar starfsaðstæður og rektorinn á Bifröst lagði mér t.d. til vinnuaðstöðu til að auðvelda prestsþjónustu við íbúa háskólaþorpsins.

Ég var með kirkjuskóla, 10-12 ára starf, fermingarstarf og reglubundið helgihald í öllum sóknarkirkjunum þremur og við bættist ýmis nýbreytni, s.s. göngur á milli kirkna og uppbygging á pílagrímaleiðinni frá Bæ í Skálholt.

Á vígsludegi nýja prestssetursins í Stafholti
4. desember 2011

Á aðventukvöldi í Stafholtskirkju

Kór Stafholtskirkju

Friðaðar kirkjur þarfnast mikils viðhalds

Áskoranir í sveitum landsins

Í sveitaprestaköllum víða á landsbyggðinni eru áskoranirnar fjölmargar. Víðfeðmi gerir það að verkum að það tekur tíma að fara um. Börnin í sveitinni eru háð því að foreldrar þeirra skutli þeim í kirkjustarfið og víða þarf fólk jafnvel að aka langar vegalengdir til að sækja kirkjulegar athafnir og taka þátt í starfinu. Þá eru tekjur fámennra sveitasókna oft svo litlar að erfitt er að standa undir útgjöldum og viðhaldi á gömlum friðuðum húsum. Því er sjálfboðin þjónusta mikilvæg í rekstri litlu safnaðanna úti á landi. Það leiðir af sjálfu sér að presturinn sinnir ekki einungis prestsþjónustu heldur verður líka að vera sveigjanlegur og taka þátt í því sem nauðsynlegt er að gera og snýr að söfnuðinum og rekstri hans. Það jákvæða er að margt fólk í sveitinni hefur ríkar taugar til kirkjunnar sinnar og kirkjustaðanna og leggur gjörva hönd á plóg í safnaðar- og uppbyggingarstarfi. Veruleikinn er sá að maður gengur undir manns hönd ef erfiðleikar steðja að og samfélagið leggst allt á eitt ef það þarf að lyfta grettistaki.

Þverárrétt 2009

Samfélag í kirkjunni

Kirkjan um allt land er í lykilhlutverki í því að skapa samfélag á milli manna. Sá siður var enn við lýði í Borgarfirði þegar ég kom þangað að kirkjuganga var ekki einungis guðsþjónustan í kirkjunni heldur ekki síður kaffið á eftir.  Þetta gilti um allar sóknarkirkjurnar og oft skiptist fólk á að bjóða heim. Mér fannst gaman að búa svo vel í Stafholti að auðvelt var að bjóða fólki inn á bæ að messu lokinni og eiga áframhaldandi samfélag þar. 

Kirkjukaffi á heimili prestsins á kirkjudegi Stafholtskirkju 2017

Dómkirkjan

Tveir prestar starfa við Dómkirkjuna og organisti í fullu starfi. Þar að auki er kirkjuhaldari og fleira starfsfólk sem kemur að rekstri og umsjón kirkjunnar. Þetta gerir að verkum að prestarnir hafa góðan stuðning og starfsaðstæður til að gegna starfi sínu.

Dómkirkjan hefur verið Reykvíkingum skjól á sorgar-og gleðistundum frá 1796. Hún á því ríkan sess í hugum margra reykvískra fjölskyldna og langt út fyrir það.

Messað er sérhvern helgan dag ársins. Dómkórinn starfar við kirkjuna og leiðir söng við guðsþjónustur og heldur tónleika þar sem metnaðarfull dagskrá er í öndvegi.

Dómkirkjan hefur ýmsar skyldur sem tengjast opinberu rými. Þar koma alþingismenn saman til guðsþjónustu áður en Alþingi er sett á haustin og þar er helgistund í upphafi hátíðardagskrár á Austurvelli 17. júní. Þar er komið saman áður en forseti er settur í embætti svo eitthvað sé nefnt.

Fjölbreytt starf í Dómkirkjunni

Við stöndum fyrir ýmsu fjölbreyttu starfi, s.s. „opnu húsi“ , hádegisbænum og morgunsöng . Við höfum tekið upp ýmsa nýbreytni í fermingarstarfi, s.s. því að halda „lasagna-kvöld“  á haustin og bjóða fermingarbörnum og foreldrum þeirra til kvöldverðar og samfélags. Við höfum einnig staðið fyrir kaffihúsakvöldi á vorin fyrir sama hóp sem einnig er uppskeruhátíð fermingarstarfsins.

Það er mikilvægt að standa fyrir ýmiss konar nýbreytni til að ná til nýrra hópa. Ég hef leitt örgöngur um Kvosina og svo er Kvöldkirkjan  einu sinni í mánuði. Þá er kirkjan opin til hugleiðslu, slökunar og bænahalds frá kl. 20-22. Tónlistin sem flutt er styður við það að fólk finni innri ró og kyrrð. Stuttir ritningarlestrar, bænir eða örhugvekjur eru fluttar á 30 mínútna fresti og fólki er frjálst að koma og fara eins og því hentar. Hægt er að leggja sig í grjónapúða eða dýnur á gólfi og kveikja á bænaljósum.

Þetta er tilraunaverkefni fyrir þann hóp sem er leitandi eða vill rækta frekar trúarlíf sitt og andlegan vöxt en finnur sig ekki endilega í sunnudagsmessunni.

Með sr. Önnu Sigríði Pálsdóttur
fyrrverandi Dómkirkjupresti

Bænalíf með fótunum
– Göngur milli kirkna

Alveg frá því ég var barn hef ég notið þess að fara í kirkju. Eftir að ég varð prestur varð mér ljóst að það væri nauðsynlegt að ná til fólks sem sótti ekki endilega í messu á sunnudögum, en vildi gjarnan auðga trúarlíf sitt.

Ég hef alltaf haft yndi af því að ganga og hreyfa mig, helst í náttúrunni. Ég komst í kynni við pílagrímahreyfinguna á Norðurlöndum sem hefur sett mannrækt og umhverfismál á oddinn um leið og þau leggja rækt við andlegan vöxt í gegnum kristið trúarlíf.

Pílagrímagöngur hafa líka verið kallaðar „bænalíf með fótunum“.

Árið 2011 hleypti ég af stokkunum göngum á milli sveitakirkna í Borgarfirði og er óhætt að segja að þessar göngur hafi slegið í gegn. Í kjölfarið var félagið Pílagrímar stofnað en það stóð fyrir því að stika leiðina frá Bæjarkirkju í Borgarfirði alla leið í Skálholt.  Félagið stóð einnig fyrir árlegum göngum á Skálholtshátíð. Þessi íslenska pílagrímaleið er 120 km., gengin á sex dögum og er auðvelt að fara hana á eigin vegum.

Pílagrímar í Skorradal, Fitjar í baksýn

Jakobsvegur á Spáni

Upp úr þessu starfi spratt samstarf við ferðaskrifstofuna Mundo sem hefur staðið fyrir ferðum á Jakobsveginn á Spáni, eina vinsælustu pílagrímaleiðina í Evrópu á okkar dögum. Ég hef leitt fjölmarga hópa um þann veg.  Ótalmargir hafa þá reynslu að gangan um Jakobsveg hafi bætt líf þeirra. Sú reynsla að feta í fótspor genginna kynslóða er dýrmæt upplifun og það að ganga í þögn og samfélagi við aðra kyrrir hugann, nærir andann og bætir heilsuna.  Með því að taka eitt skref í einu kílómetra eftir kílómetra göngum við til  móts við okkur sjálf og Guð.

Með Dómkirkjufólki á torginu fyrir framan dómkirkjuna í Santiago de Compostela

Einfalt og hófstillt líf og andlegur vöxtur

Pílagrímahreyfingin er í raun og veru orðin að lífsstílshreyfingu, þar sem fólk sér raunverulegan valkost andspænis þeirri efnishyggju sem er svo áberandi í samtímanum.

Pílagrímurinn leggur rækt við einfalt og hófstillt líf í stað neyslu og sóunar.

Pílagrímurinn leggur upp úr umhyggju, kærleika og samkennd í eigin garð og gagnvart samferðafólki sínu.

Pílagrímurinn hlúir að æðruleysi, kyrrð og andlegum vexti í gegnum arfleifð kristinnar trúar. Þannig kallast lífsstíll pílagrímsins á við þá nauðsyn í samtímanum að lifa sjálfbæru lífi í sátt við sköpunarverkið.

Íslenska pílagrímamerkið

Örgöngur í Reykjavík

Það þarf  ekki að ganga mörg hundruð kílómetra til að  tileinka sér hugmyndafræði pílagrímsins. Þess vegna setti ég af stað örgöngur þegar ég hóf störf við Dómkirkjuna í Reykjavík. Örgöngurnar hefjast með örstuttri helgistund og að því búnu er farið í gönguferð um næsta nágrenni kirkjunnar. Örgöngurnar eru líkamleg og andleg næring mitt í önnum hversdagslífsins, lítil lind á miðvikudögum kl. 18 sem hægt er að krjúpa við og  svala þorstanum  svo við höfum þrek til að halda göngu okkur áfram og takast á við verkefni daganna.

Örgöngur í Kvosinni