Gamlárskvöld
Lexía: Sálm 90.1b-4, 12
Pistill Hebr. 13.5b-7
Guðspjall Lúk 12.35-40
Kæri söfnuður! Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hjá rúmi barnsins logar ljós í stjaka
Hve líf sem friðar nýtur andar rótt.
Ég veit í haga hirðar góðir vaka
og hjarðar sinnar gæta enn í nótt.
En burtu er vikinn sá er forðum færði
þeim fögnuð mikinn, lýðnum nýja von.
Með kross á enni annar kom og særði
til ólífis þinn bróður, mannsins son.
Og fánýt er þín leit að leiðarstjörnum:
Þær leynast daprar bak við niðdimm ský
því handa jarðarinnar jólabörnum
er jata engin til að fæðast í.
Með ykkur snauðu hirðar vil ég vaka
og vitringunum þessa löngu nótt
og minnast þess við lítið ljós í stjaka
hve líf sem friðar nýtur andar rótt.
Svona orti skáldið Einar Bragi um jólin 1972 þegar sprengjuregnið var hert í Víetnam sem aldrei fyrr á jólanótt. Og það sama gerðist í landinu helga um þessi jól þegar sprengjunum rigndi yfir Gaza og jólahaldið lá niðri í fæðingarborg frelsarans.
Óhætt er að segja að stríð og friður sé mál málanna þessi dægrin eins og svo oft áður í veraldarsögunni og afleiðingarnar eru eyðilegging, trauma og sorg.
Það er því miður staðreynd að illskan leikur lausum hala í veröldinni. Ekki hefur enn tekist að uppræta ranglæti, grimmd, fátækt og misskiptingu og það er ekkert annað en illska og hatur sem er undirrótin að voðaverkunum í Ísrael og á Gasa og þetta botnlausa hatur er mikið áhyggjuefni fyrir alla heimsbyggðina.
Og því miður bendir allt til þess að atburðir undanfarinna þriggja mánaða tæpra muni ekki gera neitt annað en sá enn meira hatri í þann blóðuga akur sem plægður hefur verið í Miðausturlöndum undanfarin 100 ár.
Fjöldi þeirra Ísraelsmanna, gyðinga og araba, sem hafa trúað á möguleikann á friði með svo kallaðri tveggjaríkjalausn hefur víst hrapað eftir voðaverk Hamas 7. október og hafði þeim stöðugt fækkað undanfarin ár samhliða uppgangi öfgamanna í ísraelskum stjórnmálum.
28 árum eftir að Yitzak Rabin var myrtur af ísraelskum öfgamanni á útifundi í Tel Aviv til stuðnings Oslóarsamkomulaginu sem þeir Rabin og Jassir Arafat gerðu um friðsamlega sambúð tveggja ríkja gyðinga og araba geta öfgamennirnir í báðum fylkingum svo gott sem fagnað sigri, öfgamennirnir sem vilja ekki frið heldur stefna aðeins að einu marki sem er tortíming óvinarins.
Engu að síður getur varla annað verið en að langstærstur meirihluti gyðinga og araba í Ísrael og Palestínu vilji bara fá að lifa lífinu í öryggi og friði.
Og heimsbyggðin þarf á því að halda að fólk horfi til þeirrar leiðarstjörnu sem getur leitt hana í átt til þess (rúms þar sem ljósið) ljóss sem fær að loga í friði á stjaka (við rúm barnsins).
Þó svo að skelfingaratburðirnir í Ísrael og á Gaza hafi leitt til enn meiri ótta, tortryggni og haturs á báða bóga er samt sem áður að finna ljós í myrkrinu, í fólki sem neitar að gefa trúna á frið upp á bátinn, fólki sem hefur árum saman barist fyrir og heldur áfram að berjast fyrir friðsamlegri sambúð og gagnkvæmri virðingu og viðurkenningu araba og gyðinga sem byggja Landið helga. Einn slíkur friðflytjandi, Rami Elhanan, 73 gyðingur, sagði einmitt í viðtali í þýska fréttatímaritinu der Spiegel 4. nóvember að gjaldið fyrir frið væri hæfnin til þess að sýna náunga sínum sömu virðingu og maður vildi að sjálfum sér væri sýnd.“ Átakalínan í Miðausturlöndum lægi ekki á milli palestínskra múslíma og ísraelskra gyðinga heldur á milli þeirra sem vildu ekki frið og þeirra sem væru tilbúin til þess að greiða þetta gjald fyrir frið. Elhanan tilheyrir samtökum sem nefnast The Parents Circle, sem stofnuð voru árið 1995 og samanstanda af 600 gyðinga- og arabafjölskyldum sem misst hafa ættingja í átökunum og berjast fyrir friði í Ísrael og Palestínu. Hann ferðast ásamt arabískum Palestínumanni? félaga sínum og vini, hinum 55 ára gamla Bassam Aramin, og þeir hafa haldið fjölmarga fyrirlestra víða um heim en einnig í Ísrael og á svæðum Palestínumanna um möguleikann og nauðsyn þess að koma á friði sem grundvallast á stofnun sjálstæðs ríkis Palestínumanna við hlið Ísraels. Þeir eru aðeins eitt par af mörgum sem þannig ferðast um á vegum þessara samtaka og þó svo að þetta fólk sé kannski ekki stórt hlutfall af íbúatölunni þá er varla hægt að ofmeta mikilvægi þess að þessi og mörg önnur grasrótarsamtök í Ísrael sem vinna að friði séu starfandi. Og það er langt í frá auðvelt starf og ekki alltaf þakklátt hlutskipti. Bæði Elhanan og Aramin segja frá því í viðtalinu í Spiegel að þeir séu álitnir svikarar af mörgum samlöndum sínum. Og sömu sögu segir Ghadir Hani, arabískur Ísraeli og verðlaunuð baráttukona fyrir friði, í grein sem hún skrifar í fréttamiðilinn The Times of Israel 28. desember. Hún bendir í greininni á dæmi um sambúð og samvinnu arabískra ríkisborgara í Ísrael og gyðinga og talar um að hún og aðrir arabískir Ísraelar vilji brúa bilið á milli samfélaganna tveggja, gyðinga og araba. Hún gerir sér engar tálvonir um að öfgar og hatur muni gufa upp en er sannfærð um að ljós friðflytjenda muni skína skærar og skærar því þeir eigi sér ekkert annað föðurland. „Jafnvel þótt þeir reyni að þagga niður í okkur munum við ekki gefast upp,“ skrifar hún. „Friðurinn mun hafa betur einn daginn og því fyrr, því fleiri líf munu bjargast.“
Nú skal það áréttað að ég er ekki sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda og í þessu tilliti er ég bæði áhorfandi og leikmaður. En ég er þeirriar skoðunar að ef það er eitthvað sem kristið fólk og kristin kirkja getur gert á tímum stríðsátaka þá er það að tala fyrir friði og gegn pólaríseringu af hver kyns tagi og minna sífellt á þá grundvallarhugmynd kristins mannskilnings er að sérhver manneskja sé sköpuð í guðs mynd, sama hverrar trúar hún er, sama af hvaða kynþætti, kyni og þjóðar. Sérhver manneskja á rétt á því að komið sé fram við hana af virðingu og hún fái lifað í friði.
Þetta er það sem alþjóðasamfélagið ætti að horfa til og stefna að.
Hlúa að friði í stað stríðs, sáttum í stað átaka.
Um áramót er venja að líta um öxl. Fara yfir árið, rifja upp það sem gerðist og spyrja sig áleitinna spurninga.
Textar þessa kvölds endurspegla þetta en ekki síður það hve brothætt lífið er og það er minnt á arfleifð og samhengi.
Í lexíunni úr Davíðssálmum sem Þjóðsöngurinn okkar byggir á segir ma: „Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
og í sálminum erum við hvött til að sækjast eftir visku og treysta á stuðning Guðs í meðbyr sem mótbyr lífsins. Enda hafi Drottinn verið athvarf fólks kynslóð eftir kynslóð. Við sem nú lifum, erum einn hlekkur í keðju kynslóðanna.
Af pistlinum að dæma er augljóst að höfundur Hebreabréfsins hefur kynnst hatursmönnum sem ógna lífsöryggi. Engu að síður er boðskapurinn uppörvandi vonarboðskapur sem rétt eins og lexían minnir á að Guð er það skjól sem við eigum víst og þess vegna sé ekkert að óttast.
Lexían og pistillinn leggja ríka áherslu á trúna sem birtist í trausti til Guðs og gefur okkur hugrekki til að lifa.
„Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga “
segir í guðspjalli dagsins.
Dæmisagan um þjónana sem bíða eftir að húsbóndinn komi úr brúðkaupi er dæmisaga um árvekni. Að við megum ekki vera andvaralaus gagnvart ýmiss konar hættum sem steðja að, hvort sem það eru þjófar um nótt, vond og skaðleg áhrif eða öfgafullar skoðanir sem geta grafið um sig í samfélaginu.
Við þurfum sem sé að halda vöku okkar bæði sem samfélag og sem einstaklingar og vinna gegn því sem vont getur talist og með því sem gott er og fagurt.
Sannleikurinn er sá að sérhver kynslóð stendur frammi fyrir ýmiss konar áskorunum sem reyna á hugrekki okkar, árvekni og dómgreind.
Og þá erum við kannski komin að kjarna málsins.
Hvernig varðveitum við og ræktum með okkur bjartsýni, þakklæti og von á tímum þegar jörðin hristist undir fótum okkar og pólarísering og hatursorðræða veldur átökum og sundurlyndi.
Á víðsjárverðum tímum getur lífssýn kristninnar reynst gott haldreipi.
Og við sem og börnin okkar og unga fólkið þurfum á þeirri lífsýn að halda að við höfum trú á framtíðinni þrátt fyrir stríð, náttúruhamfarir, loftslagsvá og ýmiss konar brekkur.
Kæri söfnuður!
Framundan er gamlárskvöld. Lyktin af steikinni liggur í loftinu, veisluborð bíður okkar, samfélag með fjölskyldu eða vinum, upprifjun á helstu viðburðum ársins og áramótaskaupið með sínu glensi. Flugeldar og fjör. Fögnuður, gleði og eftirvænting eftir hinu nýja ári er framundan næstu klukkustundirnar. Það er gott að njóta þess. Og svo rennur upp nýr dagur.
Þegar við göngum til móts við nýja árið sem er algerlega óskrifað blað getum við haft í huga orðin úr harmljóðunum:
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
Guð gefi að sérhvern morgun þessa nýja árs munum við vakna með bjarta von í brjósti og nýja náð og þá getum við tekist á við vanda og verkefni daganna af hugrekki, árvekni og æðruleysi hvað sem mætir.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.