2. sd. e. þrettánda
Guðspjallið Matt. 9. 27-31
Kæri söfnuður! Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Við upphaf nýs árs á sér stað ákveðin núllstilling, bæði í almanaksárinu – augljóslega – en einnig í hugum okkar sjálfra hvers og eins.
Þetta er hugræn núllstilling, við gætum jafnvel talað um sýndarupphaf á e-u nýju sem við ímyndum okkur eða ætlum okkur. Það getur gerst formlega með áramótaheiti eins og margir hafa tamið sér að strengja. En jafnvel þó svo að fólk orði ekki eða skilgreini nákvæmlega hvað það ætli sér að gera á nýju ári til þess að bæta lífsgæðin, þá hugsa ég að í undirmeðvitund hvers og eins kvikni jafnvel ómeðvituð von um að hið nýja ár muni bera í skauti sínu bót á því sem betur mætti fara í lífi hvers og eins, samanbera jóla- og áramótakveðjuna: Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Það má, held ég, með góðum rökum halda því fram að það sé eitt mikilvægast einkennið á manninum sem tegund að bera nánast óslökkvandi vonarneista í brjósti og trú á að hið ómögulega sé mögulegt.
Þetta einkenni – eða kannski hæfileiki – mannsins er nátengt aðlögunarhæfni hans og getu til að lifa af við erfiðar aðstæður. Og hvergi birtist þessi hæfileiki mannsins skýrar en í samhengi trúarinnar.
En sagan hefur líka margoft sýnt að til þess að ná markmiðum, sem virðast óyfirstíganleg, þá getur verið gagnlegt að setja sér jafnvel enn stærri markmið – eins mótsagnakennt og það hljómar – sem lýsa líkt og vonarstjarna á himni sem nærir von og trú mannsins á, að hið ómögulega sé mögulegt. Þetta kemur til dæmis skýrt fram í textum ritningarinnar sem fjalla um nýjan himinn og nýja jörð sem er í raun fyrst og fremst dramatísk og áfhrifamikil leið til þess að tjá ítrustu von og trú á að þrátt fyrir allt mótlæti og þrátt fyrir að staðreyndir hversdagsins virðist benda til annars, þá sé hið góða þess megnugt að bera sigurorð yfir hinu illa og muni gera það að lokum.
Blindu mennirnir í guðspjallinu bera einmitt slíka von í brjósti en ekki aðeins það heldur líka trú og traust á að Jesús geti gert von þeirra um sjón að veruleika. Vissulega er ekki fráleitt að skilja trú blindu mannanna tveggja yfirfærðum skilningi og nýfengna sýn þeirra þannig að hún tákni að þeir öðlist skilning á eðli veruleikans, vilja guðs með tilliti til sköpunar og mannlegs samfélags og því sem skiptir raunverulega mestu máli í lífinu. En við þurfum ekki að túlka þessa sögu sem táknsögu – við megum einnig skilja hana bókstaflega sem dæmi um mátt hins guðlega og möguleikana sem í því geta falist að reyna að mynda tengsl við Guð og hinn guðlega veruleika með virku trúar- og bænalífi. Við megum ekki gleyma því að aðstæður frásögunnar eru annars eðlis en okkar eigin aðstæður: blindu mennirnir standa frammi fyrir Jesú Kristi sjálfum og hann veitir þeim sjón í krafti guðlegs máttar síns. Við höfum ekki Krist hjá okkur í eigin persónu. En við getum hins vegar haft það sem blindu mennirnir hafa: trú. „Trúið þið að ég geti gert þetta?“ spyr Jesús og hann svarar jákvæðu svari þeirra með því að snerta augu þeirra og segja: „Verði ykkur að trú ykkar.“
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að einlæg trú og öflugar bænir fyrir sjúkum geti haft jákvæð áhrif á líðan og jafnvel bata þeirra og þannig verið dýrmætur stuðningur við þær læknismeðferðir sem læknavísindin hafa upp á að bjóða.
Og það er líka nauðsynlegt að bera von og trú í brjósti gagnvart hversdagslegum viðfangsefnum daganna og ársins sem bíður manns sem óskrifað blað í upphafi nýs árs. Trú á það að Guð muni vel fyrir sjá. Trú á það að maður sjálfur ráði við þær áskoranir sem fyrir manni liggja og maður hefur jafnvel sjálfur sett á dagskrá í formi áramótaheits.
Oftar en ekki snúa slík heit að því að venja sig af hinum og þessum ósiðum eða óhollum lífsstíl almennt, s.s. hreyfingarleysi, áfengisneyslu, reykingum o.s.frv. Í pistlinum er Páll einmitt að brýna safnaðarmeðlimi í Korintuborg að þeir umgangist líkamlegar þarfir á ábyrgan hátt þannig að valdi ekki skaða og orð hans hefjast á hinum þekktu og viturlegu orðum: „Allt er mér leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.“
Þarna er Páll að tala um fyrirbæri sem er ofarlega á baugi í nútímanum sem er óviðráðanlegt stjórnleysi gagnvart líkamlegum þörfum eða nautn, eða það sem við köllum í nútímanum „fíkn.“
Til forna var þessu ástandi líkt við það að vera þræll en það er staða sem engum hugnast að vera í. Þannig lagði Jóhannes Gullinmunnur (347-407), erkibiskup af Konstantínópel, einn af kirkjufeðrunum, megináherslu á frelsi mannsins gagnvart löngun sinni í skýringum hans við versið sem fjallar um magann og matinn. Hann segir að Páll riti: „þér er frjálst að eta“ en það sé þá líka mikilvægt að gæta þess að vera frjáls í því en verða ekki þræll löngunar sinnar því sá sem noti hana hæfilega sé meistari hennar en sá sem geri sig sekan um óhóf sé ekki lengur meistari hennar heldur þræll, þar sem græðgin ríki innra með honum. “ (tilvitnun lýkur)
Að vera meistari langana sinna en ekki þræll þeirra er því í raun inntakið í mörgum þeirra áramótaheita sem fólk strengir og eru gjarnan tengd mat og drykk líkt og Páll gerir að umfjöllunarefni í pistlinum. En hvatning hans til safnaðarins í Korintu snýr einnig að kynferðislegri hegðun og við erum einfaldlega komin á þann stað í flestum vestrænum samfélögum að við teljum það ekki koma neinum öðrum við en sjálfum okkur hvernig ástamálum okkar er háttað. En að halda að Páll sé að fjalla um ástamál fólks er að miklu leyti misskilningur sem á sér kannski rætur í þeim vanda sem felst í því að þýða texta úr einu tungumáli í annað, frá einum tíma til annars og einu menningarsamfélagi til gjörólíks menningarsamfélags.
Það þarf að hafa í huga að Páll lítur á manninn (og þegar ég nota það orð á ég við allt fólk) – ekki aðeins sem góða sköpun Guðs heldur sé maðurinn skapaður í mynd Guðs. þannig er maðurinn eða fólk heilagt að gyðinglegum og kristnum skilningi og það sem er heilagt er frátekið fyrir Guð og það skal umgangast af þeirri virðingu sem hinu heilaga sæmir. Í þessu sambandi getum við minnst orða Krists um að guðs ríki sé innra með okkur. Páll orðar það svo að líkaminn sé musteri heilags anda. Páll virðist nota raunverulegar aðstæður í söfnuðinum sem tilefni til þess að fjalla um virðingu manneskjunnar og líkama hennar: Því staðreynd málsins er sú að það eru karlmenn í söfnuðinum sem fara til vændiskvenna og textanum er greinilega beint að karlpeningnum í Korintusöfnuðinum þó svo að sú staðreynd fari forgörðum tungumáli beggja kynja sem einkennir biblíuþýðinguna 2007.
Orð Páls um saurlifnað vísa sérstaklega til þessarar hegðunar karlanna í Korintu en að mati þýska nýjatestamentisfræðingsins Luise Schottroff „má gera ráð fyrir því í tilfelli safnaðarins í Korintu, að karlarnir hafi verið vanir að kaupa sér konur fyrir smápeninga og að flestar konurnar hafi haft reynslu af því að selja sig.“ Söfnuðurinn hafi hins vegar verið staður, þar sem þau gátu lifað annars konar lífi sem mótvægi við þennan efnahagslega og félagslega veruleika.
En aðalatriðið er kannski það að með orðum sínum snertir Páll á kjarna vandamáls sem er sístætt í mannlegu samfélagi og Me-too byltingin s.k. fletti hulunni af svo um munaði en það er ójöfn staða kynjanna sem lýsir sér í því hvernig konur þurfa að þola kynferðislega hlutgervingu sem í verstu tilfellum birtist í því að þær verði fórnarlömb kynferðislegrar nauðungar eins og mansals.
Hver og ein manneskja hefur gott af því að líta um öxl – hvort sem er um áramót eða á hverjum öðrum tíma – og leggja mat á eigið líferni og íhuga leiðir til úrbóta þar sem úrbóta er þörf en það er einnig gott og reyndar nauðsynlegt fyrir samfélagið því að ríkjandi viðhorf í samfélaginu breytast ekki nema einstaklingarnir breyti viðhorfum sínum.
En það er hætt við því að maður sé blindur á sjálfan sig og sitt nánasta samfélag. Þess vegna skulum við láta brýningu Páls til karlanna í Korintusöfnuðinum opna augu okkar og verða okkur hvatning til þess að líta lífsstíl okkar og viðhorf gagnrýnum augum með það að markmiði að varðveita helgi manneskjunnar, okkar eigin og annarra, og vegsömum Guð með öllu okkar lífi.
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.
Almenn kirkjubæn
Biðjum saman í Jesú nafni.
Eilífi Guð, þú sem ert uppspretta allrar visku, allrar vonar, allrar gæfu, þú þekkir þörf okkar og þrá áður en við biðjum.
Veit okkur það sem við þörfnumst til líkama og sálar, og uppfyll það sem við kunnum ekki að óska eða biðja. Gef að trú okkar dugi til að okkur takist að lifa góðu og innihaldsríku lífi og breytum að þínum vilja.
Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.
Heilagi Guð. Við biðjum þig að vera með þeim sem gegna ábyrgðarstörfum í almannaþágu. Vak yfir forseta Íslands, ríkisstjórn, alþingi og dómstólum. Gef ráðamönnum þjóðarinnar anda speki og ráðsnilldar. Send þeim trausta ráðgjafa og ráðholla vini. Við biðjum einnig fyrir kirkju landsins að við getum verið samfélag umhyggju og vonar, reiðubúin að standa með þeim sem þjást og örvænta.
Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.
Miskunnsami Guð, við biðjum fyrir sjúkum og sorgmæddum, fyrir þeim sem eru einmana og einangruð. Fyrir þeim sem skortir heilsu og styrk og þeim sem eru án atvinnu og hafa áhyggjur af afkomu sinni og framtíð.
Fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Lifandi Guð. Við biðjum fyrir öllum þeim sem líða vegna ófriðar í heiminum, sértaklega biðjum við fyrir systkinaþjóðunum í Úkraínu og Rússlandi og fyrir þeim sem líða vegna átakanna í Ísrael og á Gaza. Við biðjum þig eilífi Guð að styrkja þau sem eru á flótta eða á vergangi í heiminum.
Gef okkur hlýjan faðm og opinn huga svo við getum reynst þeim vel sem leita ásjár okkar.
Fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Við biðjum þig eilífi Guð að vaka yfir og blessa öll þau sem við elskum nær og fjær og við nefnum nöfn þeirra í hljóði sem við hugsum sérstaklega til á þessari stundu. Stutt þögn.
Lát þau finna blessun og hjálp og öðlast kjark, huggun og frið. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.
Við lofum þig líknsami Guð fyrir fegurð þessarar jarðar, fyrir morguninn, sólina, fyrir dýrð blómanna, söng fuglanna og yndisleik barnanna. Við þökkum fyrir fegurð listarinnar í tali og tónum sem nærir og dýpkar upplifun okkar og gleði. Gefðu okkur smekk fyrir því sem fagurt er og nærir andann Gerðu okkur þakklát fyrir gjafir þínar og gef að við þiggjum þær í auðmýkt. Fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Játum syndir okkar og lifum í kærleika og sátt við alla menn.