1. sd. aðventu – Ömmu og afamessa
Lexían Jes. 42:1-4
Pistillinn 1.Þess. 3:9-13
Guðspjallið Mark. 11: 1-1
Kæri söfnuður:
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Enda þótt jólaljósin séu löngu komin upp í Ikea og í öllum hinum búðunum, þá eru margir sem ljúka við að setja aðventuljósin í gluggana í dag.
Ljósin sem minna okkur á það að hann er að koma sem sagði: Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins
Nú eru framunan þrjár vikur af undirbúningi jafnt hið ytra sem hið innra.
Og nú höfum við einnig kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransinum. Kertinu sem við köllum spádómskertið en það minnir okkur á spádómana sem segir frá í Gamla testamentinu um Messías sem koma skyldi og frelsa þjóðina.
í dag 1.sd. í aðventu gengur nýtt kirkjuár í garð.
Kirkjuárið lýtur nefnilega ekki sama dagatali og því sem klukkurnar mæla. Kirkjuárið hefst þegar ganga okkar í átt til Betlehem hefst.
Kirkjuárið er byggt þannig upp að við getum nýtt okkur takt þess til að þroskast sem manneskjur.
Nú er t.d. í tísku að fasta hálfan sólarhringinn, en áður fyrr fastaði kristið fólk tvisvar á ári: á lönguföstu fyrir páskana og á aðventunni, eða jólaföstunni eins og stundum var sagt. Þetta var gert í þeim tilgangi að fólk gæti gert sér dagamun þegar jólahátíðin sjálf gekk í garð. Hófstilling og einfalt líf var í raun og veru þema aðventunnar OG HVÍ ÆTTI ÞAÐ EKKI AÐ GETA VERIÐ ÞEMAÐ ENN ÞANN DAG Í DAG?
Aðventan er tíminn þegar við undirbúum heimili okkar og okkur sjálf til að taka á móti boðskap kristinnar trúar um það að frelsari mannanna hafi fæðst í litlu barni.
Þetta er tíminn þegar við treystum fjölskylduböndin vegna þess að um jólin verður það svo skýrt hve mikilvæg tengsl eru fyrir gleði okkar og hamingju.
Það er ástæðan fyrir því að við hvöttum fermingarbörnin til að bjóða ömmum og öfum með til messu í dag, vegna þess að það er svo mikilvægt og dýrmætt fyrir okkur öll, bæði börn og fullorðna að finna og skynja að við tilheyrum; fjölskyldu, vinum og ýmiss konar félagslegu samhengi.
Það er staðreynd að allir foreldrar þurfa helst af öllu að eiga bakland til að geta alið upp heilbrigða einstaklinga. Það er a.m.k. afar dýrmætt að eiga vini og vandamenn að, í því verkefni. Og samfélag á milli kynslóða er einnig svo dýrmætt til að miðla gleði, þekkingu og visku.
Gildismati og lífssýn er einnig miðlað frá einni kynslóð til annarrar. En það er ekki einvörðungu í aðra áttina því yngra fólkið elur okkur eldra fólkið líka upp og hjálpar okkur sem eldri erum til að endurmeta það sem við þurfum kannski að sjá í nýju ljósi. Þannig græða allar kynslóðir á góðum tengslum.
Kæri söfnuður.
Jólaboðskapurinn snertir allt það helgasta í allri okkar veru og það birtist skýrt í því að við viljum helga heimilin okkar í aðdraganda jóla og hafa þau fín og falleg og í því birtist kannski þrá okkar eftir því að þar viljum við eiga öruggt skjól.
Við viljum einnig gleðja þau sem við elskum og færa þeim fallegar gjafir ef nokkur kostur er og við viljum auk þess leggja eitthvað af mörkum og láta gott af okkur leiða vegna ÞEIRRA SEM EIGA BÁGT. Þetta er allt afar verðugt og mikilvægt. En þetta er ekki það eina sem máli skiptir.
Í lexíu dagsins er talað fyrir réttlæti. En þar segir: „Sjá þjón minn sem ég styð,minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.“
Og í pistlinum erum við hvött til að sýna kærleika og samúð þegar ritað er: „Drottinn efli
ykkur og auðgi að kærleika hvert til annars og til allra. “
ÉG hygg að þessi texti geti talað beint inn í aðstæður líðandi stundar. Stríð og friður er áleitið efni þessa dagana t.d. í landinu helga.
Og af textum dagsins má draga þá ályktun að réttlæti og friður haldist í hendur og að kærleikur og færni til að setja sig í annarra spor séu forsenda friðar.
Textar fyrsta sunnadags í aðventu boða eftirvæntingu eftir breytingum og sannfæringu um að breytingar geti átt sér stað.
Þess vegna boða þessir textar tilhlökkun. Tilhlökkun eftir nýjum og betri tíma.
Það er mikilvægt að eygja þá von.
Guðspjallið um innreið Jesú inn í Jerúsalem dregur upp skýra mynd af því þegar Jesús var fagnað sem hetju. Orðspor hans hafði borist víða og í slagtogi með honum var múgur og margmenni. Hægt er að spyrja sig: Hvaða væntingar hafði fólkið til hans sem fagnaði honum svo mjög?
Oft hefur því verið teflt fram hvort almenningur hafi fremur séð Messías fyrir sér sem hershöfðingja en sem friðarhöfðingja?
Það má alveg velta því fyrir sér, en í mínum huga eru öll tvímæli tekin af um slíkar vangaveltur í þessu guðspjalli vegna þess að Jesús kemur ríðandi á asna sem er skýrt tákn um frið en ekki um hernað.
Þau öll sem hafa upplifað stríð vita að
friður er óhjákvæmileg forsenda velsældar og stríð veldur hörmungum og óhamingju og því ekki að undra að marga dreymir um frið. Ef við horfum til landsins helga steðja stríðandi öflin hvarvetna því miður að og hatrið sem knýr átökin áfram virðast takmarkalaust.
Það er ljóst að gagnkvæm virðing og vilji til að lifa saman í sátt og samlyndi er forsenda friðar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Og nú þegar jólin nálgast hafa þessi átök haft áhrif langt út fyrir Ísrael og Gaza. Margt fólk á Vesturlöndum tekur afstöðu ýmist með Ísraelsmönnum eða með Palestínumönnum. Á sama tíma finna gyðingar á Vesturlöndum fyrir undiröldu anti-semitisma sem blossar upp í kjölfar árása Ísraelshers á Gaza og þora því varla út fyrir hússins dyr vegna hatursglæpa í þeirra garð.
Einmitt þegar ástandið í heiminum er svona þurfum við svo sárlega á því að halda að horfa til hans sem reið inn í Jerúsalem með friði og hógværð.
Átökin í landinu helga eru flókin og átakasagan er orðin löng. Mikill harmur og sorg er samofinn þeirri sögu á báða bóga. Upphafsskrefið í átt til friðar hlýtur að felast í því að báðir aðilar viðurkenni rétt hvors annars til lífs í öryggi og friði.
En ófriðurinn er ekki einungis í landinu helga og austur í Úkraínu, ófriðurinn getur tekið sér bólstað hvar sem er, líka hér á landi og ófriðurinn getur geisað milli þjóðfélagshópa, stjórnmálaafla eða einstaklinga.
En flest þráum við þó að lifa í friði.
Þess vegna ættum við á þessari aðventu að horfa í átt til hans sem beitti ekki valdi heldur hvatti til kærleika.
Hógværð, kærleikur, virðing og réttlæti eru eftirsóknarverð gæði sem við ættum að hlúa að á þessari aðventu þegar við, í hug og anda ferðumst í átt til Betlehem til að líta barnið sem brátt verður lagt þar í jötu.
Kæri söfnuður!
Framundan er yndislegur tími. Bæði tími mikilla anna, en jafnframt tími mikillar eftirvæntingar og gleði. Látum ekki yfirborðsmennsku, kvíða, ófrið eða falskar væntingar ræna okkur jólagleðinni.
Guð gefi að aðventan okkar verði tími undirbúnings og endurskoðunar og að við gefum okkur tóm til að rækta sönn gæði sem hvorki mölur né ryð fá grandað.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.