6. sd. eftir þrenningarhátíð

Lexía: Jes 42.5-7
Pistill: Gal 3.26-29
Guðspjall: Matt 5.17-19


Kæri söfnuður. Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á þessu sumri hef ég farið tvisvar sinnum með hóp af fólki á Jakobsveg og þar hef ég gengið um grundirnar sem pílagrímar hafa fetað kynslóð eftir kynslóð í meira en þúsund ár. Þeir sem ekki hafa verið á Jakobsvegi gætu haldið að um einn veg sé að ræða.

En það er öðru nær. Vegirnir eru raunar margir og liggja úr ólíkum áttum. Margir fara portúgölsku leiðina frá Lissabon eða Porto, aðrir „konungsleiðina“ sem liggur meðfram norðurströnd Spánar, einhverjir fara  hina s.k. „silfurleið“ sem liggur frá Sevilla og er upphaflega rómversk leið. Svo er það „frumstæði vegurinn“ sem liggur frá Oviedo,  en algengast er að menn gangi hina s.k. „frönsku leið“ sem liggur frá Frakklandi yfir Pýreneafjöllin og í áttina til Santiago de Compostela þangað sem allir þessir gömlu vegir liggja.

Þar er hin víðfræga Dómkirkja þar sem álitið er að bein heilags Jakobs Zebedeusarsonar séu jarðsett. Áður fyrr þegar pílagrímar höfðu náð í mark í Compostela og dvalið um tíma í borginni, þá þurftu þeir vitaskuld að koma sér heim,  ýmist fóru þeir fótgangandi eða sigldu með skipi og þá þurftu þeir að ganga til hafs 5 daga leið.  Finisterra er örnefni hvaðan pílagrímar miðalda sigldu oft forðum. En það örnefni er latína og þýðir: Heimsendi. Þegar pílagrímar miðalda stóðu við ströndina á Heimsins enda og horfðu á sjónarrönd sáu þeir fyrir sér að við hana væri þverhnípi niður.

 

Örnefnið Finis Terra  ber vott um þá heimsmynd sem biblían varðveitir einnig víða í textum sínum, m.a. þegar Jesaja spámaður ritar: (Drottinn) sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex... etc.

Hér er gengið er út frá því sem vísu að jörðin sé flöt.

 

En þótt heimsmynd okkar hafi breyst og við vitum mæta vel að jörðin er hvorki flöt eins og pönnukaka, né að sólin komi upp eða setjist, þá eru viskutextar biblíunnar enn gagnlegir í glímu mannsins við stóru tilvistarspurningarnar og brekkur lífsins. Texti Jesaja spámanns er jafnframt uppörvunar og vonartexti sem flytur þær fréttir að brátt sé að vænta batnandi tíðar með blóm í haga!

 

Eitt af því sem pílagrímar upplifa í ríkum mæli á göngunni er frelsið sem fólgið er í því að gera ekkert annað en ganga, borða og hvílast. Það er svo margt sem getur haldið fólki í fjötrum og maður getur upplifað það að vera ófrjáls þótt maður sé ekki í fangelsi.

Jesaja orðar þessa hugsun þegar hann ritar: Drottinn mun:

„leiða fanga úr varðhaldi
og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

 

Kirkjunni hefur löngum verið legið á hálsi fyrir það að jafnrétti hafi ekki verið í hávegum haft innan hennar raða. Og þessi gagnrýni á fyllilega rétt á sér. Skemmst er að minnast þess að staða kvenna og karla innan kaþólsku kirkjunnar sem og rétttrúnaðarkirkjunnar er ekki sú sama og vígsla kvenna innan þessara kirkjudeilda er ekki enn viðurkennd þó margt sé þar í deiglunni.

Það er hins vegar eftirtektarvert að í frumkirkjunni og í Jesúsamfélaginu virðist ríkja róttæk sýn á stöðu kvenna og karla. Guðspjöllin birta glöggt að bæði karlar og konur voru í lærisveinahópi Jesú og meira að segja Páll postuli, sem seint mun kallast feministi, ritar í pistli dagsins um jafna stöðu allra gagnvart Guði.

 Ljóst er að eftir því sem fram liðu stundir og kirkjan stofnanavæddist þá festi feðraveldið sig sífellt meira í sessi og hefðbundin sjónarmið til kvenna tóku yfir og karlarnir tóku smám saman nánast alfarið völdin í kirkjunni. - Og svo liðu margar aldir þar til konum tókst að endurheimta þá jafnréttissýn sem virðist ríkja á fyrstu öldinni.

 Ritningartextinn úr Galatabréfinu sem er pistill dagsins hefur löngum verið notaður til að renna stoðum undir hvers kyns mannréttindabaráttu í gegnum tíðina enda eru orðin sterk:

„Hér er hvorki gyðingur né annarrar trúar maður, karl né kona... “

Hér er á ferðinni sú jafnréttishugsun sem er svo róttæk í boðskap Jesú.

Jesú var oft legið á hálsi fyrir að brjóta boð og bönn, lög og reglur. Hann borðaði með fólki sem var á jaðrinum í samfélaginu, þvoði sér ekki um hendurnar á þann hátt sem hreinsunarsiðir gerðu ráð fyrir, hann  læknaði á hvíldardegi og talaði til kvenna og barna með nýjum hætti.

Og hann var dæmdur og krossfestur sem „lögbrotsmaður“.

 Þess vegna vekur það eftirtekt í guðspjalli dagsins þegar hann segir:

„Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla“.

Hann virðist semsé tala hér af mikilli virðingu um lögmálið.

Hafa ber í huga að Matteusarguðspjall var skrifað fyrir gyðinga til að boða kristna trú þeirra á meðal og þess vegna er það einnig gyðinglegasta guðspjallið ef svo má segja. Af þeim sökum hafa margir sett fram efasemdir um að það geti hugsast að Jesús sjálfur hafi sagt þessi orð.

En þá ber að halda því til haga að „lögmálið“ vísar í margar áttir.

Þegar talað er um það er átti við boðorðin 10, fyrstu 5 bækur G.t.

Og þegar talað er um „lögmálið og spámennina“ er það í raun samheiti yfir Gt. Og þegar gyðingar vísa í lögmálið er það bæði „munnlegt og skriflegt“. Og vegna hinnar munnlegu hefðar á túlkun lögmálsins varð til starfsstétt fræðimanna sem túlkaði í þaula stórt og smátt sem snert gat lögmálið.

En hvað á Jesús eiginlega við þegar hann segist vera kominn til að uppfylla lögmálið?

 

Hver var raunveruleg merking lögmálsins?

Á bakvið hið skriflega og munnlega lögmál er eitt prinsíp sem fræðimennirnir og fariseunum yfirsást algerlega.

Því þegar öllu er til skila haldið er það virðing sem boðorðin tíu birta. Virðing fyrir Guði, nafni Guðs, fyrir foreldrum, hvíldardeginum, fyrir lífinu, fyrir eignum, fyrir einstaklingum, sannleikanum, öðru fólki og okkur sjálfum.

 

Virðing sem kemur í veg fyrir það að neikvæðar tilfinningar hafi áhrif á okkur.

Þannig birta boðorðin tíu virðingu fyrir Guði, náunganum og okkur sjálfum. Þetta snýst ekki um fórn heldur miskunnsemi, ekki um lögmálshyggju heldur kærleika, ekki í boðum og bönnum heldur í hvatningu til að lifa lífinu í kærleika og umhyggju.

Og það er þessi kærleikur sem Jesús er að tala um þegar hann segist vera kominn til að uppfylla lögmálið.

 

„All you need is love“

sungu bítlarnir forðum. Og það má eiginlega segja að þetta sé viðlag við það sem Jesús boðaði forðum. En kærleikur Krists er ekki einungis ást á milli tveggja elskenda, heldur á milli allra manna sem birtist í óeigingjarnri umhyggju, velvild, virðingu og kærleika gagnvart öllu sem lifir.

Menn hafa spurt sig að undanförnu: Hvernig stendur á því að allt þetta fólk fer út á gömlu pílagrímavegina í Evrópu.

Og það hefur ekki staðið á tilgátum!

Í mínum huga er sennilegasta tilgátan sú að á tímum þegar samanburður og einstaklingshyggja er áberandi í samfélaginu og  samkeppni á vinnumarkaði mikil er það undursamlegt frí frá því að vera á Veginum, þar sem samkennd, umhyggja og kærleikur er allsráðandi og maður gengur undir mannshönd svo samferðamennirnir komist líka í mark.

Samfélagið á Jakobsvegi er eins og endurómur af því samfélagi sem við viljum innst inni tilheyra alla daga en eigum svo erfitt með að skapa.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Forrige
Forrige

9. sd. eftir þrenningarhátíð

Neste
Neste

Annar í páskum