16. sd. eftir þrenningarhátíð
Lexía: Davíðssálmi 130
Pistill: Fil. 1.20-26
Guðspjall: Jóh 11.1,3,17-27
Kæri söfnuður.
Ég heilsa ykkur með kveðju postulans:
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Af hverju líður okkur svona illa þegar við höfum það svona gott?
Þetta er heiti á bók eftir sænska geðlækninn Anders Hansen sem kom út í íslenskri þýðingu nýverið.
Áhugaverð spurning sem tekst á við það að leita skýringa á því hvernig á því geti staðið að þunglyndi, kvíði, einmanaleiki og kulnun virðist vera orðin að faraldri á Vesturlöndum.
En auðvitað er ekkert nýtt undir sólinni. Áföll og andstreymi eru ekki ný af nálinni það ber lexía dagsins vott um sem áætla má að sé rituð fyrir 2500 árum
Ritningartextar dagsins, sérstaklega lexían og guðspjallið hafa hina traustu von að viðfangsefni. Textarnir beina athygli okkar að því atriði í mannlegri tilveru sem líklega má telja til mikilvægustu eiginleika mannsins í baráttu hans við að lifa af: VONINNI- OG TRAUSTINU Á ÞVÍ að allt muni fara vel að lokum- jafnvel þótt maður geti alls ekki vitað það með vissu.
Við erum öll sem manneskjur svo mismunandi til þess fallin að takast á við lífið, þar hefur margt áhrif: erfðir, uppeldi, og félagslegar aðstæður.
Máltækið: „hver er sinnar gæfu smiður“ stenst ekki nema að takmörkuðu leyti Þekkt máltæki úr Grettissögu er í andstöðu við þetta og við þekkjum öll dæmi um sannleiksgildi þess þegar sagt er: „Sitt er hvað gæfa eða gjörvileiki.“
En hvernig sem gæfuhjólið snýst hlýtur að skipta máli hvernig maður tekur þeim verkefnum sem lífið færir okkur.
Það hefur löngum þótt guðs blessun að vera jákvæður og lífsglaður. En jafnvel þótt maður sé það, þá þýðir það vitanlega ekki að maður sé ónæmur fyrir brotsjóum lífsins. Allir geta sökum áfalla, missis eða hvers kyns andstreymis komist á þann stað að vera tímabundið fyrirmunað að sjá út úr sortanum, fundist hann eða hún vera sokkin til botns í tilfinningalegu eða sálrænu tilliti. Vitaskuld er ómetanlegt í slíkum aðstæðum að eiga trú eða búa yfir því trausti að allt fari vel.
En eins og danski heimspekingurinn og guðfræðingurinn Sören Kierkegaard fjallaði um þá getur það jafnvel reynst nauðsynlegt að sökkva til botns til þess að vera tilbúinn til þess að teygja höndina upp til yfirborðsins í einlægri von um að Guð grípi hana og dragi mann á þurrt land aftur.
„Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn“ ritar höfundur 130 Davíðssálms og viðurkennir með þeim upphafsorðum angist sína og kallar til Guðs í dýpstu örvæntingu og líkir því við það að hann sé að sökkva í hafdjúpið.
En þrátt fyrir örvæntinguna hefur hann ekki misst alla von um að Guð heyri og bregðist við bæn hans.
„Drottinn heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.“
Þessi von byggist á trausti á tilvist kærleiksríks Guðs sem lætur sér annt um fólk og vill veita því skjól og þetta tjáir skáldið með orðunum.
„Því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.“
„Djúpið“ sem skáldið ákallar Guð úr, er gríðarlega áhrifamikil táknmynd um allt það sem ógnar tilvist einstaklinga og hótar að tortíma lífi þeirra og þessi táknmynd er notuð víða í Gt. ekki aðeins í bókstalegri heldur mun oftar í yfirfærðri merkingu. Við sem búum við hafið skiljum ógn þess vel og ekkert er óhugnanlegra en að sökkva í djúpið. Hafið hefur eyðingarmátt og brotsjóir geta mulið skip mélinu smærra og í nútímanum höfum við reynslu af því þegar heilu byggðirnar hafa orðið rústir einar eftir flóðbylgju af hafi. Það er því ekki að undra að hafið sé táknmynd fyrir óreiðu í sköpunargoðsögum Mið-Austurlanda.
En „djúpið“ getur einnig verið táknmynd fyrir persónulegar og félagslegar þrengingar, s.s útskúfun, ofbeldi eða hatur.
Og eftir því sem ráða má af fjölmiðlaumfjöllum um þau mál virðist ekki vera neinn skortur á fórnarlömbum ofbeldis og eineltis hér á landi hvort sem það er í skólum eða á vinnustöðum.
Ef við leyfum okkur að gera því skólna að „djúpið“ sem sálmaskálið okkar í Davíðssálmi 130 upplifir sig verandi í, sé einhvers konar félagslegar þrengingar s.s. einangrun, einmanaleiki eða jafnvel félagsleg útskúfun, hvaða væntingar hefur það þá um að gerist þegar það segir:
Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orða bíð ég.
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Og hvaða lausnar skyldi skáldið vænta?
Jú, væntanlega þeirrar að aðstæður þess umbreytist í andstöðu sína. Að í stað einangrunar og einmanaleika eða útskúfunar komi kærleiksrík samskipti við annað fólk og samþykki og virðing fyrir eigin persónu.
Við berum öll nokkra ábyrg á því, bæði sem samfélag og einstaklingar í samfélagi að samferðafólk okkar verði ekki einmanaleika eða útskúfun að bráð.
Hatursorðræða sem er eitt af málum málanna um þessar mundir er t.d. mál sem er þessu tengt. En burtséð frá því þá getum við öll lagt okkar að mörkum í daglegu lífi til þess að skapa a.m.k þau jákvæðu tengsl og traust á milli borgaranna sem eru nauðsynleg til þess að efla almenna vellíðan í samfélaginu ekki aðeins í samskiptum við skóla- eða vinnufélaga eða í fjölskyldun heldur líka úti í búð eða úti á götu með því að sýna almenna kurteisi, nærgætni og tillitsemi.
En lítum nú á guðspjallið sem er afar spennandi texti.
Þegar Jesús kom loks til Betaníu til að vitja um systurnar Mörtu og Maríu sem höfðu sent eftir honum, vegna hins veika bróður þeirra, má skynja óþreyju og vonbrigði Mörtu. Hún virðist afar vonsvikin yfir því að hann skyldi ekki koma fyrr.
Engu að síður hafði fjölmargt fólk heimsótt þær systur í kjölfar dauða Lasarusar til að gráta með þeim, uppörva þær og hugga.
En samúð þess fólks dugði Mörtu ekki svo hún léti huggast.
Við munum mörg eftir Mörtu úr biblíusögum bernsku okkar fyrir það að hún kvartaði við Jesú yfir því hvað María systir hennar væri löt og óviljug að hjálpa henni við húsverkin. En hér kemur hún fram ekki sem fórnarlamb aðstæðna sinna, heldur sem sterk og áköf trúkona sem gerir kröfu á Krist um að rétta sér hjálparhönd í nánast óbærilega erfiðum aðstæðum.
Við þekkjum það flest að hafa staðið frammi fyrir því að horfa á eftir ástvinum í dauðann og því þekkjum við hvaða tilfinningar leita á okkur í kjölfar slíks missis. Við þekkjum líka þær áleitnu spurningar sem vakna í þeim kringumstæðum og oft fylgir því angist hve ótrúlega þunnur þráður er á milli lífs og dauða eins og Marta viðrar hér.
Og helst vildum við snúa staðreyndum við að hinn látni sé enn lífs.
„Ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn“ sagði Marta við Jesú þegar hann vitjaði um þær systurnar eftir að hann frétti af veikindum Lasarusar.
Og hún sagði líka: Nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Þá sagði Jesús við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Og í kjölfar þess kemur hin þekkta játning Mörtu þar sem hún viðurkennir hann sem þann Krist sem koma skyldi í heiminn. Þessi játning Mörtu kallast á við játningu Péturs, sem eins og kunnugt er verður „kletturinn“ sem kirkjan var byggð á og páfinn í Róm telur sig arftaka þess kletts.
Í gegnum tíðina hafa konurnar í biblíunni ekki fengið jafn mikla athygli og postularnir. Engu að síður var staða systranna Mörtu og Maríu sterk í lærisveinahópnum og það þarf ekki að efast um að þær og allar hinar konurnar í ritningunni hafa mótað og haft áhrif á kristnar konur í gegnum aldirnar og gefið þeim þrótt til að vera þær konur sem hugur þeirra stóð til.
Trú Mörtu er einlæg og sterk og hún efast ekki um getu Jesú til að snúa hlutunum á þann veg sem hún vill. Þar kemst enginn efi að. Og trú hennar flytur fjöll eins og stundum er sagt.
Því í kjölfar játningar Mörtu reisir Jesús Lasarus við.
Guðspjallamaðurinn Jóhannes gerir að því skóna að upprisa Lasarusar sé í raun og veru PR – mál eins og það væri kallað í dag. Það er tilgangurinn hafi verið sá að auglýsa dýrð Drottins. En látum það liggja á milli hluta og beinum sjónum okkar að öðru gröf Lasarusar.
„Gröf“ í myndmáli biblíunnar er ekki frekar en „djúpið“ einungis bókstaflegrar merkingar heldur getur hún líka verið táknmynd fyrir miklar þrenginar, félaglegar eða af völdum sjúkleika. Þegar fólk upplifir sig skorta allt sem gerir lífið þess virði að lifa því. Þess vegna er gröf Lasarusar ekki aðeins legstaður dauðs manns, heldur má túlka hana sem táknmynd fyrir félagslegar þjáningar einstaklinga. Þess vegna eru systkinin Marta og Lasarus sterkar táknmyndir fyrir það hvað samfélag sem byggir á sannri trú á lífgefandi mátt Krists, getur megnað, þ.e. a reisa upp til lífs þann sem dáinn er, en auðvitað í yfirfærðri, félags-sálfræðilegri merkingu.
Af hverju líður okkur svona illa þegar við höfum það svona gott spyr sænski geðlæknirinn Anders Hansen og gerir grein fyrir því með lífeðlisfræðilegum rökum hvað það sé í nútíma samfélagsgerð sem ýtir undir vanlíðan mannsins. Hann heldur því m.a. fram að mikil og regluleg hreyfing vinni gegn þunglyndi og kvíða en ekki síður innihaldsrík tengsl við annað fólk. Hann mælist til þess að til að sporna við þeirri lýðheilsuógn sem einmanaleiki er í nútímanum ættu allir að leggja sig fram við að rækta tengsl og rjúfa einangrun annarra.
Kristin kirkja er ekki einstaklingshyggju-trúarbrögð heldur samfélagsleg trúarbrögð og einmitt slík lífssýn á erindi inn í þær aðstæður sem ógna vellíðan mannsins á okkar dögum þegar við ættum að geta haft það svo gott.
Kirkjan í þessum heimi sem er samfélag fólks sem gefur sig út fyrir það að elska Guð og náungann og vilja þjóna náunga sínum í kærleika hefur hér mikið verk að vinna. Þannig getur kirkjan fyrir sitt leyti leitast við að skapa líkingu guðsríkisins þar sem kærleikur og réttlæti ríkir. Á þær árar getum við öll lagst.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.