9. sd. eftir þrenningarhátíð
Lexía Jer. 1: 4-10
Pistillinn Ef. 5. 8b-14
Guðspjall: Lúk 12.42-48
Kæri söfnuður.
Ég heilsa ykkur með orðum postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í umliðinni viku hefur mönnum orðið tíðrætt um umboð og vald biskups Íslands og sitt sýnist hverjum. Margt kirkjufólk hefur sett fram ólík sjónarmið og lögfræðingar hafa bent á rök með og á móti. - Og ýmsir lagakrókar hafa verið viðraðir.
En víst er að biskup Íslands sem nú situr var kosinn löglegri kosningu árið 2012 og vígður til hirðisþjónustu. - Og þessi biskup lýsti því yfir í þessari kirkju á nýársdag að hann hyggðist láta af embætti á næsta ári.
Við vígsluna var biskupi falið það hlutverk að vera hirðir íslensku þjóðkirkjunnar. Það er brýnt að tryggja það í lagalegu umhverfi þjóðkirkjunnar að ekki komi upp vafi á því að umboð biskups sé óvéfengjanlegt. Það er m.a. verkefni kirkjuþings að beita sér fyrir því að svo sé.
Í Lexíu dagsins er fjallað um umboð og vald og þar er engum vafa undirorpið hvaðan valdið kemur, því Drottinn segir:
„Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“
Jeremía fer undan í flæmingi þegar Drottinn kallar hann til þess að verða spámaður fyrir þjóðirnar. - og kannski ekki að undra!
Spámaðurinn lætur í veðri vaka að það sé algert vesen að vera kallaður til þessarar þjónustu. En þar með er ekki öll sagan sögð, því þetta er í raun og veru klassísk köllunarsena úr G.t. þar sem sá sem kallaður er maldar í móinn og finnur því allt til foráttu að taka við verkefninu. Það að malda í móinn verður eins og nauðsynlegt skilyrði fyrir því að vera verðugur þess að taka verkefnið að sér.
Hefðin gerir m.ö.o ráð fyrir því að Það sé eitthvað undarlegt við það að hafa metnað til að taka slíkt hlutverk að sér.
Enda segist Jeremía vera „óverðugur“, hann sé alltof ungur til að tala en þær fortölur bíta ekki á Drottinn miðað við það sem haft er eftir Jeramía sjálfum! Því skv. textanum lofar Guð Jeremía því að hann muni veita honum stuðning og leggja honum orð í munn, leiða hann og veita honum vald og umboð.
En verkefni Jeremía er það að taka til hendinni og hreinsa til í þeim tilgangi að byggja upp.
Það má eiginlega segja að fortölur Jeremía séu forsenda þess að honum sé fengið umboðið. Honum á ekki að finnast hann vera rétti maðurinn, hann á að efast um erindi sitt og eigið ágæti. Hann á að vera auðmjúkur og finnast hann þarfnast leiðsagnar Guðs og handleiðslu.
Og kannski er þessi texti einmitt ágætis áminning til allra þeirra sem fara með vald og eru í forsvari að þau ættu að vera auðmjúk og sjálfsgagnrýnin og nálgast viðfangsefni sín af lítillæti.
Í pistlinum úr Efesusbréfinu er brugðið upp myndmáli af andstæðum.
Þar er annars vegar ljós og hins vegar myrkur. Verk ljóssins eru vitaskuld góð og þola vel dagsbirtu en verk myrkursins eru svo slæm að vart er hægt að nefna þau upphátt. Illska myrkraverkanna verður öllum ljós ef frá þeim er greint, eða þau birtast öðrum og slík verk skyldu allir forðast!
Postulinn hvetur söfnuðinn í Efesus til að sneiða hjá því vonda og hann hvetur meðlimina til að efla dómgreind sína til að vera fær um að greina á milli góðs og ills. Páll?(Var það ekki hann?) er í raun að hvetja söfnuðinn í Efesus til að efla með sér siðvit og viðmiðið er að gera einungis það sem „Drottni þóknast“.
Söfnuðurinn fær handleiðslu og leiðsögn frá Guði, rétt eins og Drottinn leiðir spámanninn Jeremía.
Og postulinn lofar því að það muni hafa jákvæðar afleiðingar að þjóna því góða og fagra og tilheyra þar með börnum ljóssins.
Við fyrstu sýn gæti guðspjall dagsins virst afar fráhrindandi, því frásögnin fjallar um ofbeldi og refsingar.
En þegar betur er að gáð þá er sagan margslungnari en kannski virðist í fyrstu.
Húsbóndinn fer að heiman og felur ráðsmanni umsýslu með þjónum sínum og framganga ráðsmannsis gagnvart samstarfsfólki sínu er svívirðileg og sjálfur hegðar hann sér af algeru hömluleysi. Jesús er að bregða upp senu af aðstæðum þar sem ráðsmaðurinn bregst skyldum sínum og þeim væntingunum sem gerðar voru til hans og misnotar í raun aðstöðu sína.
Það má túlka söguna á þann veg að hún fjalli um það að framganga okkar hafi raunverulegar afleiðingar.
Það sé samhengi á milli þess hvernig við breytum og komum fram og hverjar afleiðingarnar verða.
Og það sem meira er afleiðingarnar eru í samhengi við stöðu okkar og ábyrgð.
Ef fólk hegðar sér svívirðilega, er sem betur fer ósennilegt að það komist upp með það til lengdar. Ef fólk kemur illa fram, er mjög líklegt að það þurfi að svara til saka einn daginn. Í því er réttlætið sem við viljum að ríki í samfélagi mann m.a. fólgið.
Ef húsbóndinn fær sér ráðsmann sem ræður ekki við verkefnið og reynist hyskinn eða ómerkilegur, gefur augaleið að sá húsbóndi þarf að láta þann ráðsmann bæði taka afleiðingum gerða sinna og segja honum upp störfum.
Oft er talað um það í samfélagslegri orðræðu að fólk sem ber mikla ábyrgð eigi jafnframt skilið að fá umbun fyrir ábyrgð sína. En menn geta ekki aðeins fleytt rjómann. Hegðað sér eins og búrkettir. Þeir þurfa líka að taka afleiðingunum ef þeir rísa ekki undir ábyrgðinni sem þeim var falin á herðar.
Öllum heiðri og allri vegsemd fylgja jafnframt ríkar skyldur. Enda segir í guðspjallinu:
„Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“
Sameiginlegt þema í textum þessa sunnudags er það hlutverk hinna kölluðu að uppræta hið illa, berjast fyrir hinu góða og sýna heilindi í allri framgöngu.
Litur kirkjuársins eftir þrenningarhátíð er grænn og liturinn vísar til þess að trúin ber ávöxt ef að henni er hlúð. Það er því ekki að undra að umfjöllunarefnin í lestrum sunnudaganna eftir þrenningarhátíð tengjast oft sama efni; grósku og vexti.
Við erum öll kölluð til þess hlutverks að ganga erinda Guðs eins og Jeremía.
Við erum öll hirðar á e.n. hátt. Kölluð til að „byggja upp og gróðursetja.“ Og við erum jafnframt kölluð til þess að forðast myrkraverk en ganga erinda ljóssins eins og postulinn orðar það í Efesusbréfinu.
Sannleikurinn er sá að þetta á við okkur hvert og eitt, hvar sem vettvangur okkar kann að vera. Því við gegnum öll mikilvægum hlutverkum í okkar persónulega lífi, á vinnustað, í fjölskyldu eða í öðru félagslegu samhengi og öll getum við haft gríðarleg áhrif til góðs eða ills.
Þess vegna höfum við öll ráðsmannsskyldur og höfum val um það að koma vel fram við þjónana og vera allsgáð þegar húsbóndinn kemur heim að vitja um það sem hann fól okkur /trúði okkur fyrir.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.