2. sd. í föstu

Lexía: Okv 4.23-27
Pistill: Op 3.10-13 
Guðspjall: Mrk 9.14-29


Kæri söfnuður.

Víða í biblíunni er greint frá fólki sem sagt er vera haldið illum öndum.

Sakir þess að við nútímamenn höfum tilhneigingu til að útskýra veruleikann á upplýstann hátt, liggur beinast við að ætla að þau sem haldin voru óútskýrðum sjúkdómum, sem menn höfðu ekki einu sinni hugtök yfir til forna og jafnframt takmarkaða möguleika til að meðhöndla, hafi einfaldlega verið álitin haldin „illum öndum“.

Flogaveiki, spasmi, málhelti, geðveila og margir aðrir sjúkdómar sem við þekkjum deili á í dag hafa herjað á fólk til forna eins og nú og ekki er ósennilegt að illir andar hafi verið n.k. regnhlífahugtak yfir miskunnarlaus veikindi og erfiða krankleika manna.

Skýrar heimildir eru til fyrir þeirri almennu trú að illir andar hafi verið víða á ferli og að menn hafi beitt ýmsum ráðum og gert heiðarlegar tilraunir til að ráða niðurlögum þeirra. Í fornum textum, t.d. frá Qumran-samfélaginu, má finna textabrot sem innihalda særingarformúlur til að reka út illa anda. Aðrir textar innihalda bölbænir gegn hinum illa - Belial og öllu hans hyski.  Sagnaritarinn Flavíus Jósefus segir frá því að gott sé að nota rót rúturunna, sem var lækningajurt til forna, til þess að reka út illa anda, sem séu ekkert annað en andar vonds fólks sem leggist á hina lifandi og drepi þá, nema þeir fái hjálp gegn þeim.

Fræðimenn hafa bent á að særingartextarnir í Qumran sýni skýr merki áhrifa frá Mesópótamíu, sem skýra megi með dreifingu Gyðinga í Babýlon og Assúr.

Í Tóbítsbók, sem er skemmtileg nóvella og finna má í Biblíunni frá 2007, er greint frá því þegar Tóbías Tóbítsson notaði lifur og hjarta fisks til að reka burt illan anda sem myrt hafði sjö eiginmenn Söru, frænku hans og verðandi eiginkonu, á brúðkaupsnóttina:

Fnykurinn af lifur og hjarta fisksins hrakti illa andann í burtu og flýði hann alla leið til Egyptalands. En Rafael erkiengill elti hann uppi, tók hann til fanga og fjötraði hann þar.

Frásögnin í  guðspjalli dagsins endurspeglar hina almennu trú fornaldar, að illir andar leiki víða lausum hala og leggist á fólk.

Hér í þessu guðspjalli hefur sonur mannsins þjáðst allt frá barnæsku og faðirinn virðist vera vondaufur um að mögulegt sé að hjálpa drengnum, því hann spyr Jesú hvort hann geti „nokkuð hjálpað þeim“. Og Jesús svarar– að því er virðist hálfönugur ef ekki móðgaður – „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“

Þessi orð Jesú hljóta að eiga við hann sjálfan því spurning föðurins sneri að getu Jesú til að reka út andann.

Það óvænta sem gerist er að faðirinn snýr þessu upp á sjálfan sig og hrópar: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Þó svo að þetta kallist vissulega á við aðrar frásagnir þar sem Jesús lýsir því yfir að trú fólksins, sem leitar til hans, hafi áhrif til jákvæðrar niðurstöðu, þá er svar föðurins óvænt atriði í textanum. Svar Jesú gerir ráð fyrir að sá sem trúir og sá sem getur séu ein og sama manneskjan:

Sá getur allt sem trúir

en með viðbrögðum föðurins eru sá sem trúir og sá sem getur, allt í einu orðnir tveir:

Sá sem getur allt er Jesús
og hinn sem trúir      er  faðirinn

Og  fyrir trú föðurins rekur Jesús illa andann út og reisir drenginn upp.

Þessi frásögn er í raun bæði kraftaverkasaga og upprisusaga. Saga um það þegar allt fer á besta veg. Þegar hlutirnir fara eins og við óskum heitast og biðjum.

En hún birtir ennfremur svo glöggt þann veruleika að trúin er ekki sjálfgefin, heldur er trúin eilífðarbarátta þar sem trú og vantrú takast á.

Enda þótt við viljum trúa þá fyllumst við líka efasemdum og vantrú a.m.k. stundum!

Þetta andsvar föðurins: Ég trúi hjálpa þú vantrú minni gæti verið okkur umhugsunarefni nú á föstunni þegar við fetum okkur áfram í gegnum föstuvikurnar og beinum sjónum okkar innávið til kjarnans í okkur sjálfum,  skoðum hug okkar og breytni og ef til vill: hvað við stöndum fyrir í raun og veru. Erum við heil og sönn? Erum við sjálfum okkur samkvæm eða þurfum við að losa okkur við einhverja djöfla sem á okkur herja?

Lexían í dag er fallegur og eftirtektarverður texti og rímar fallega við föstutímann þegar við beinum hugsun okkar að því hvernig við tökumst á við veruleika syndarinnar.

Hér er fjallað í yfirfærðri merkingu um hjartað sem miðstöð hugsunar, tilfinninga og siðferðis og sem slíkt markar það stefnuna sem líf okkar tekur. Farsælt líf hins réttláta einstaklings kemur út af því hjarta sem vel er gætt og þar af leiðandi hreint og réttlátt, laust við fals og svik.

Þessi hugsun er einkennandi fyrir speki Gamla testamentisins. Sá sem finnur speki Guðs finnur lífið og öðlast velþóknun Guðs sem birtist í farsæld. Á öðrum stað í orðskviðunum er sjúkt hjarta sett fram sem andstæðan við tré lífsins, sem er myndmál fyrir hamingjuríkt líf en sjúkt hjarta er þá tákn óhamingju.  

Vegna þess að frá hjartanu fáum við mennirnir leiðsögnina um þá leið sem við ættum að fara erum við brýnd til að varðveita hreinleik hjartans til þess að þaðan streymi ekki aðeins yfirborðskennt líf, heldur f.og f. gott og innihaldsríkt líf sem er Guði velþóknanlegt.

Við erum hvött til þess að ljúga hvorki né stunda undirferli, vera staðföst/ staðfastur og gera ekkert illt en um leið er ljóst að það að varðveita hjartað felst ekki síst í því að verjast áhrifum þeirra sem slíkt gera, að varast það að ill áhrif spilli okkar eigin hjarta þannig það við förum e.t.v. að taka þátt í hinni illu breytni.

Hjartað er semsé eins og aldingarður sem þarf að gæta fyrir ásókn villtra dýra eða hús sem vernda þarf fyrir illum öndum. Og einstaklingurinn sjálfur er vörðurinn sem á að gæta þessa aldingarðs eða þessa húss. Lexían talar því til samvisku okkar og ábyrgðarkenndar.

Það er áhugavert til þess að hugsa að þegar Opinberunarbókin var rituð voru margir uppfullir af heimsslitaspám. Það er ekki örgrannt um að það sama sé uppi á teningnum á okkar dögum þegar ófriður ríkir víða um heim og margir hafa áhyggjur ekki aðeins af heimsmálunum heldur einnig af umhverfismálunum og framtíð komandi kynslóða.  

Ástand heimsmálanna getur reynt á þolgæði og þrautseigju. Og pistillinn í dag talar alveg sérstaklega inn í þær kringumstæður en þar segir: „Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. “

Það er auðvelt að sigla byr þegar allt leikur í lyndi en þegar á móti blæs reynir á. Við þurfum öll að geta þolað mótlæti. -Og þolgæði og þrautseigja er öðrum þræði stef föstunnar. Faðir drengsins sem segir frá í guðspjallinu vill trúa og trú er þegar á öllu er á botninn hvolft meðvituð ákvörðun um að vona og treysta á sigur hins góða. Og þó að efinn heltaki okkur stundum þá höldum við vegferðinni áfram og vonum og treystum að fyrir tilstilli trúarinnar sem stundum er eins og lítið mustarðskorn vaxi tré undir hvers greinum við getum leitað skjóls. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Forrige
Forrige

4. sd. í aðventu

Neste
Neste

Aðfangadagur 2018