Aðfangadagur 2018

24.12.2018

 

Ég heilsa ykkur öllum, bæði ykkur sem eruð hér í Dómkirkjunni í Reykjavík sem og þeim sem eru við viðtækin hérlendis og  erlendis, til sjávar og sveita, ég heilsa ykkur með kveðju postulans. Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól!

 

Nú hafa kirkjuklukkurnar hringt inn helgi jólanna.

Margir hafa átt í önnum í dag, en nú er stundin komin,  það þarf ekki að gera neitt meira til að hátíðin geti gengið í garð. Það er orðið heilagt.

 

Um þessi jól eru liðin 200 ár frá því að jólasálmurinn Heims um ból var frumfluttur. Þessi sálmur sem okkur flestum finnst nauðsynlegt að syngja eða heyra sunginn á aðfangadagskvöld. Þessi sálmur hefur tengt saman fólk og ólíkar þjóðir og fangað á svo djúpstæðan hátt andblæ jólanna. Til er saga af því að þegar nokkrir hermenn hófu upp raust sína og fóru að syngja hann á vígstöðvunum um jólin 1914  og ómurinn af sálminum barst yfir víglínuna og  stríðandi fylkingar sungu sálminn saman, hvor á sínu móðurmáli og ekki nóg með það heldur mættust þeir á  einskis manns landinu  og skiptust á óskum um gleðileg jól. þeir „héldu jól“ ef svo mætti að orði komast.

Það eru svo margar tilfinningar og minningar sem leita á hugann og við tengjum við aðfangadagskvöld því um jólin viljum við fá að upplifa allt það sem best er;  umhyggju, ást, gleði og frið sama hvar við höldum jólin.

Og afþví að væntingarnar eru svo miklar þá er þetta kvöld líka alveg sérlega viðkvæmt. Við söknum þeirra sem okkur finnst að ættu að sitja með okkur til borðs í kvöld en eru þar ekki af einhverjum ástæðum.

 

Í kvöld gæti gömul sorg látið á sér kræla, eða söknuður eftir því sem við vildum að væri eða hefði verið en var samt kannski aldrei.

Í kvöld er nefnilega stund tilfinninganna og ef til vill finnst þér það erfitt.  

En mætti ekki líta á viðkvæmnina sem  undursamlegt merki um það að við séum  manneskjur af holdi og blóði sem höfum  elskað og þráð en líka gert margvísleg mistök, og fundið til? 

 

Og nú höfum við heyrt söguna um unga parið sem þurfti að leggja land undir fót til að láta skrásetja sig og hafði ekki í nein hús að venda.

 

Hvernig getur staðið á því að þau eru þarna í Betlehem við þessar flóknu aðstæður algjörlega stuðningslaus?

Ætti fjölskylda Jósefs ekki að vera stödd þarna líka fyrst þau voru frá Betlehem? Og ef svo er: Hvers vegna eru þau ekki í fjárhúsunum að gleðjast yfir barninu og  hjápa til?

Voru aðstæðurnar kannski flóknari en virðist í fyrstu? Samskiptin gætu hafa verið erfið eða fjölskyldan reið og móðguð yfir því að barnið skuli eiga að fæðast áður en María og Jósef hafa gengið í hjónaband?

 

Um þessar aðstæður er ekkert fjallað í textanum og þessar hugleiðingar því getgátur einar.

 

Við vitum ekki heldur neitt um það hvernig þessu unga fólki leið.

 

Það má líka velta því fyrir sér hvort og þá hvernig móðir Maríu hafi undirbúið hana áður en hún fór að heiman í þetta langa ferðalag, vitandi að barnið myndi að öllum líkindum fæðst á leiðinni. Og kunni Jósef eitthvað fyrir sér í fæðingarhjálp?

Já, það er mörgum spurningum ósvarað hér og margt sem hefur getað valdið þeim kvíða.

En það er ekkert um þetta fjallað, vegna þess að þessi saga snýst ekki um þessa hversdagslegu praktísku hluti. Hún snýst hins vegar um það stórkostlega undur að „orðið varð hold“ og Guð opinberaði sig í þessu litla viðkvæma barni sem lagt var í jötu.

 

Ung móðir umvefur

undursamlegt kraftaverk

örmum sínum

sem búa yfir allri ást og umhyggju heimsins. 

 

Sérhvert lítið barn er algjörlega háð foreldrum sínum til að lifa af

 

Og kannski er það þetta bjargarleysi, sem dregur að sér athygli okkar  því það er staðreynd að nýfætt barn fangar auðveldlega athygli manna og barnið í jötunni fangar athygli okkar í kvöld, ekki einungis vegna þess að það er nýfætt og frásögnin hugljúf, heldur vegna þess að við skynjum í því nálægð hins heilaga. Við skynjum  í því eitthvað stærra og meira heldur en skilningur okkar getur fangað.

 

Og eðlilegasta andsvar okkar við þessu undursamlega kraftaverki í jötunni er undrun og lotning.

 

María og Jósef áttu ekkert val um það að fara til Betlehem því andspænis boðum keisarans voru þau algerlega valdalaus og urðu að hlýða skilyrðislaust.

En jafnvel í valdaleysinu er alltaf von. Best hefði auðvitað verið að María hefði haldið sig heima í Nasaret og farið hvergi. Það hlýtur að hafa verið fyrsti kostur. En stundum þarf að gera plan B.

Jólasagan segir okkur að það sé ávallt von og fæðing í fjárhúsi hlýtur að teljast plan C.

 

Eru þetta ekki góð skilaboð til okkar hér og nú?

Skilaboð um það að jafnvel þótt ekki sé allt í kvöld eins og við helst hefðum kosið, þá er hægt að gera það besta úr þeim aðstæðum sem við erum stödd í.

 

Kannski hefðir þú viljað vera e-s annars staðar.  Ef til vill hefðirðu viljað deila jólunum með öðrum.

Kannski ertu á vakt í vinnunni, eða þú liggur á sjúkrahúsi, eða ert í fangelsi og getur ekki haldið jólin með ástvinum þínum.

En hvar sem við erum getum við fundið fyrir nálægð hins heilaga.

 

Ef til vill er nú þegar búið að hella jólaöli niðrá sparidúkinn og máske er allt í hers höndum af því að sósan skilur sig, steikin  er of þurr eða litla telpan búin að brenna gat á jólakjólinn. 

 

En það er engin ástæða til að láta þetta eyðileggja fyrir sér jólin. Því þau snúast um svo miklu miklu meira en þetta.

 

Þú mátt nefnilega taka á móti gleðiboðskap jólanna þótt ekki sé allt fullkomið. Og sennilega þurfum við mest á boðskap þeirra að halda þegar hlutirnir eru ekki fullkomnir.

 

En kannski eru allt bara gott og einmitt eins og það á að vera  hjá þér akkúrat núna og þá skaltu bara njóta þess með þakklæti.

 

Svo orti Þuríður Guðmundsdóttir

 

Frelsari þinn

var lagður í jötu

Og lífið í brjóst þitt.

 

Þú reifar það hlýju

eða hatri

í heimi

sem hrópar enn á krossfestingu.

 

Og trú þín fetar

Í fölum bjarma

Stjörnunnar

Sem staðnæmist

Við brjóst mannsins.

 

Að vöggu lífsins

Leggur þú gjafir þínar.

------

Við höfum pakkað gjöfunum okkar inn og lagt þær undir jólatréð. Án efa leynist margt fallegt undir trénu í kvöld.

Gjafirnar eru bæði stórar og smáar en allar táknmyndir um kærleikann og umhyggjuna sem við viljum sýna þeim sem við elskum. En stærstu gjafirnar eru auðvitað þær sem ekki er hægt að pakka inn, endurómur af hinni himnesku gjöf sem barnið sjálft er.

 

Jólaundrið sýnir okkar að Guð elskar sköpun sína, en í barninu sem liggur í jötunni opinberast það jafnframt fyrir okkur hve sköpun Guðs er viðkvæm.

 

Lítið barn gefur fyrirheit og allir möguleikar heimsins eru undir. Það er svo ótalmargt sem lítið barn getur orðið, gert, og hugsað í framtíðinni og þessi óskrifaða framtíð vekur með okkur von og bjartsýni.

 

Barnið í jötunni fæðist í heim þar sem eru margar hlýjar hendur en líka steittir hnefar og raddir sem hrópa á krossfestingu.

 

Við stöndum við jötuna horfum í átt til ljóssin sem skín þarna í myrkrinu og við megum velja hvort við tökum undir hrópin eða englasönginn .

 

Við getum valið um það hvort við reifum líf okkar hlýju eða hatri.

 

En jólabarnið kallar okkur til að hlúa að kærleika, friði, og fegurð.

 

Jólastjarnan skín nefnilega ekki bara í glugganum okkar heldur skín hún jafnfram við brjóst mannsins.

 

Og enda þótt trú okkar sé veik og við vitum ekki alltaf hvaða slóð við ættum að  feta, þá leiðir stjarnan okkur áfram eins og hún vísaði vitringunum að jötunni forðum og minnir okkur á, að dýpst í hjartanu vitum við hvað er gott og rétt, satt og fagurt.

 

 

Við munum taka upp gjafirnar í kvöld og vonandi  finnum við fyrir gleði og djúpu þakklæti. Og mörg eru þau sem hafa látið gott af sér leiða í aðdraganda jólanna og stutt þau sem standa höllum fæti í okkar samfélagi. Þetta er hluti af þeim andblæ sem svífur yfir vötnum í aðdraganda jólanna.  En svo líður kvöldið hjá, en umhyggja okkar gagnvart okkar nánustu og líka gagnvart þeim sem líða og þjást ætti ekki að líða hjá -heldur að vara.  

Því ef andsvar okkar við gjöf Drottins til manna á jólum ætti að vera eitthvað, þá væri það það að við sýndum hvert öðru kærleika og miskunnsemi, umburðarlyndi og samkennd alla daga ársins- ekki bara um jólin.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Forrige
Forrige

2. sd. í föstu