1. sd. í 9. viknaföstu

Ræða flutt á Bessastöðum


Kæri söfnuður. Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

I.

Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu? 

Þessi spurning Prédikarans í lexíu dagsins er líklega einhver sígildasta spurning sem skrásett hefur verið – sígild og áleitin á öllum tímum - ekki síst andspænis hvers kyns áföllum – hamförum og hörmungum sem dynja yfir og geta hvort tveggja stafað af náttúrulegum eða mannlegum völdum.

Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu? 

Þessi spurning hefur skírskotun bæði til hins persónulega og hins samfélagslega – 

Þannig er þessi áleitna spurning í raun tvær spurningar: Hver er ávinningur einstaklingsins af striti sínu og hver er ávinningur samfélagsins af striti einstaklinganna sem mynda það?

En hvert er svar Prédikarans við sinni eigin spurningu? 

Við fyrstu sýn virðist mega draga þá ályktun að Prédikarinn boði fyrst og síðast fánýti allra hluta og tilgangsleysi.„Aumasti hégómi, allt er hégómi!“ er sú niðurstaða sem ritið virðist komast að enda er það rammað inn með þessum orðum. 

Hins vegar – þegar nánar er að gáð – kemur í ljós að þetta er ekki eina niðurstaða ritsins. Þvert á móti tekur glöggur lesandi eftir því að í textanum standa að því er virðist ósamrýmanlegar mótsagnir hlið við hlið, annars vegar þar sem staðhæft er að allt sé fánýtt, öll veraldleg gæði séu hégómi og eftirsókn eftir vindi og að allt strit mannsins sé til einskis, en hins vegar að ekkert betra sé til en að maðurinn gleðji sig við verk sín og sé glaður og gæði sér á mat og drykk og fagni á meðan ævin endist.

 

II.

Skýringuna á þessum sýnilegu mótsögnum og vísbendingu um raunverulegan boðskap Prédikarans er mögulega hægt að finna í skýringum fræðimanna á samsetningu ritsins, 

Bent hefur verið á að persóna Prédikarans er ekki einhlít í ritinuheldur má sjá þar persónulega þroskasögu: Þar kemur annars vegar fram sá sem talar í textanum en hins vegar sá sem hann var eitt sinn en er ekki lengur. 

Upphaf ritsins tekur af allan vafa um að Prédikarinn er samsamaður Salómon konungi í fyrstu köflunum þar sem hann rifjar upp veldi sitt, auð og hóglífi sem þó – þegar allt kom til alls – veitti honum ekki raunverulega fullnægju. Ífrásögninni er boðskapur „Prédikarans“ tengdur lífshlaupi hans sem konungs og settur fram sem þróun á hugsun hans og viðhorfum og sú þróun er sett fram í textanum með því að tefla fram andstæðum sjónarmiðum. 

Prédikarinn tilheyrir þeirri spekihefð fornaldar sem lagði áherslu á hugleiðingar um inntak mannlegrar hamingju og skilyrðin sem gera hana mögulega

 

(og eitt skýringarmódel sem ritskýrendur nota til að varpa ljósi á textann, gerir ráð fyrir því að Prédikarinn vitni í sjónarmið, sem hefðin hefur haldið á lofti, og setji síðan fram sitt eigið gagnsjónarmið.

Í lexíunni er í hverfulleika og fánýti lífsins haldið fram með því að benda áendalaust strit, bæði manns og náttúru,strit sem virðist ekki leiða til neinna grundvallarbreytinga á gangi náttúrunnar eða hag mannsins sem fæðist og deyr, kynslóð eftir kynslóð. Lýsingin á striti náttúrunnar er eins ogtáknmynd fyrir þetta endalausa strit mannsins; að líkt og náttúran fylgir einfaldlega lögmálum sínum og getur ekki annað sé maðurinn einnig bundinn við þau sömu lögmál. 

 

III.

En er þetta þá niðurstaða Prédikarans – að líf mannsins sé fánýtið eitt og einskisvert strit sem veiti enga hamingju? 

Nei, ekki samkvæmt þeim sem lesa textann sem átök andstæðra sjónarmiða. –

Út frá því sjónarhorni má líta á hvatninguna til að gleðjast sem lykilinn að heildarskilningi á ritinu; lögð er áhersla á gleðina sem Guðs gjöf  og jafnvel sem „svar Guðs“ sem nær að brjótast í gegnum og trompa hverfulleika og fánýti lífsins. Með því að benda á þversagnir lífsins rífur Prédikarinn niður meint óhrekjanleg sannindi tilverunnar en hann lætur ekki þar við sitja heldur byggir upp á nýtt, setur fram nýja merkingu og reynir að finna leiðir til þess að já gleðina í ruglingslegum og skeytingarlausum heimi.

Hér í lexíunni er það Prédikarinn sem konungur sem talar, konungur sem hefur komist að því að öll ofgnótt hans og hóglífi hefur ekki fært honum sanna hamingju. Gegn bölsýni hans setur spekingurinn hin vegar fram andmæli sem lýsa bjartsýni og vísa veginn til hamingjunnar. Kjarninn í þeirri sýn byggist á því að meðtaka allt hið góða sem lífið hefur upp á að bjóða sem gjöf Guðs. Þessi áhersla beinist gegn þeirri hugsun að maðurinn geti af eigin mætti öðlast hamingju. Jafnvel þótt maðurinn virðist tímabundið ná að skapa sér hamingjuríkt líf, vari sú hamingja ekki ef maðurinn hafni veruleika Guðs.

Önnur hlið á þessum boðskap Prédikarans er að líta á hamingjuna sem bundna við reynslu en ekki eignir, því í huga Prédikarinn eru eignir einskis virði ef maðurinn getur ekki notið þeirra. 

Það er einnig eftirtektarvert að Prédikarinn leggur áherslu á hamingjuna í þessu lífi andspænis hugmyndum þess efnis að maðurinn geti fyrst fundið sanna hamingju eftir dauðann. En til þess að upplifa hamingju í þessu lífi þarf að frelsast undan tálvonum og blekkingum. Persóna Prédikarans í ritinu gengur einmitt þennan veg með því að hann fer frá því að vera konungur til þess að vera spekingur.

Þessi hugsun talar svo sannarlega inn í efnishyggju nútímans og veruleika líðandi stundar þar sem margir vilja telja fólki trú um að neysla og  efnisleg gæði séu lykill hamingjunnar. 

 

IV.

Eins og söfnuðurinn heyrði fjölluðu pistill og guðspjall einnig um spurninguna um ávinning en reyndar ávinninginn af því að fylgja Kristi. „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér“ segir Pétur við Jesú og spyr svo: „Hvað munum við hljóta?“ (Eða: hvað græðum við á þessu? svo notað sé annað orðalag) 

Og svarið sem Jesús gefur er satt að segja ekkert sérlega upplífgandi og virðist í raun enduróma bölmóð lexíunnar að því leyti að það beinir sjónum frá þessum heimi til annars heims „þegar Guð hefur endurnýjað allt“ og Pétur og hinir lærisveinarnir hafa „öðlast eilíft líf“.  

En eins og í tilfelli lexíunnar er ekki allt sem sýnist, því að allt tal hinnar biblíulegu orðræðuhefðar um eilíft líffelur í sér þann skilning að um sé að ræða spurningu um gæði frekar en magn, í raun um innihaldsríkt líf. 

Og í því sambandi er áhugavert að bæði textar Gamla og Nýja testamentisins leggja áherslu á að nauðsynleg forsendaþess að upplifa „eilíft líf“ í hinum komandi heimi sé sú að lifa í þessum heimi lífi sem einkennist af kærleika og réttlæti í samfélagi við annað fólk. 

Ávinningurinn sem Pétur spyr um er því ekki aðeins fólginn í því sem bíður í hinum komandi heimi heldur ekki síðurí því einfaldlega að fylgja Kristi og hafa hann sem sína fyrirmynd; þannig öðlast lífið sanna merkingu og tilgang líkt og Páll áréttar í pistlinum: „Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn.“

 

Hvaða ávinning hefir þá maðurinn af öllu striti sínu skv. ritningartextum þessa dags?

Það er auðvitað langt í frá að svarið sé augljóst en nærtækt er að benda á GLEÐINA – gleði sem er fólgin í því að njóta gæða þessa heims með því hugarfari að þessi gæði séu Guðs gjöf og í því að svara þeirri gjöf með því að elska náungann eins og sjálfan sig – að gleðjast yfir því sem sannarlega gleður og síðast en ekki síst að leggja sig fram um að gleðja aðra! 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Forrige
Forrige

1. sd. í föstuinngangi

Neste
Neste

2. sd. e. þrettánda