1. sd. í föstuinngangi
Kæri söfnuður!
Ég minnist þess þegar ég var nýbökuð móðir og var að fóta mig í hinu nýja hlutverki að ég hafði ríka tilhneigingu til að hlaupa á eftir dyntunum í dóttur minni og reyna að gera henni allt til hæfis.
Sem betur fer var ég svo heppin að eiga ömmu sem þorði að segja við mig að börn þyrftu aga og rútínu og ættu ekki að ráða ferðinni heldur hinir fullorðnu!
Og sem betur fer sneri ég við blaðinu og lagði mig fram um að fara að þessum ráðum ömmu minnar og þannig vöndust börnin mín á aga og líf mitt varð miklu auðveldara
Í pistli dagsins er höfundur Hebreabréfsins einmitt að fjalla um aga. Við fyrstu sýn virðist agi ekki skemmtiefni en smám saman erum við verðlaunuð fyrir það að geta verið öguð. Höfundur Hebreabréfsins talar um það að aginn færi okkur „friðsamt og réttlátt líf.“
Í dag er sunnudagur í föstuinngangi og víða um hinn kristna heim hefur verið mikið fjör þessa helgina því kjötkveðjuhátíðin stóð sem hæst í gær. Margir klæddu sig í ýmiss konar búninga og slettu að öllum líkindum ærlega úr klaufunum. Leifarnar af kjötkveðjuhátíðinni eða karnivalinu hjá okkur eru bolludagur, sprengidagur og öskudagur og þessir dagar einkennast ekki af aga heldur fremur af taumleysi.
Þegar kjötkveðjuhátíðinni er lokið gengur fastan í garð og þema hennar er hófstillt og einfalt líf.
Áður fyrr þótti sjálfsagt að neita sér um kjöt á föstunni og lifa einföldu og hófstilltu lífi.
Hvort sem við snúum baki við kjötáti næstu vikurnar eða ekki þá er fastan í raun og veru ákveðið tækifæri til þess að þjálfa sig í aga. Æfa sig í því að láta eitthvað á móti sér og hafa hlutina í föstum skorðum.
Föstur þekkjast í flestum trúarbrögðum og ég heyri um sífellt fleiri sem tileinka sér þann lífsstíl að fasta. Sumir fasta fram að hádegi dag hvern, aðrir í sólarhring eða meira a.m.k. 1 x í viku.
Því er haldið fram að föstur séu heilsubót.
Undanfarin ár hafa allnokkrir vinir mínir fastað á lönguföstu en ekki allir endilega í mat og drykk , heldur í öðrum hlutum sem þeim þykir erfitt að láta á móti sér. Þannig hafa nokkrir fastað fyrir umhverfið, aðrir á snjalltæki. Enn aðrir á sjónvarp og samfélagsmiðla.
Allt er þetta viðleitni í þá átt að taka föstutímann alvarlega, stæla viljann með því að láta eitthvað á móti sér og kannski veitir ekki af í ofgnóttarsamfélagi okkar daga.
Við getum auðvitað valið að neita okkur um eitthvað sem okkur þykir erfitt, en fastan gæti líka miðað fyrst og fremst að því að efla persónulegan þroska okkar og styrkja viljann.
Í hinu kirkjulega samhengi er fastan tíminn frá öskudegi og fram að páskum og eru þetta allt í allt 40 virkir dagar og er sú tala a ekki hending því hún kallast á við dagana sem Jesús var í eyðimörkinni og fastaði. Skv. frásögum g.t. voru árin sem Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni áður en þeir komust til landsins sem flaut í mjólk og hunangi 40 talsins.
Þannig að 40 er mikilvæg og táknræn tala.
Fastan er ekki einungis tíminn þegar við látum eitthvað á móti okkur heldur líka tími sem hvetur okkur til að líta í eigin barm, skoða breytni okkar og lífsstefnu.
Í lexíunni sem var lesin hér áðan og er úr G.t., nánar tiltekið úr spádómsbók Jesaja, þá er erum við hvött til endurmats og viðsnúnings ekki einungis í okkar persónulega lífi heldur erum við hvött til að ryðja til hliðar hvers kyns félagslegri og trúarlegri óáran sem er andstæð er vilja Guðs.
Og þarna er boðskapur lexíunnar og pistilsins algerlega í takt því í pistlinum er ritað: „Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir. “
Og ef okkur tekst að feta þessar beinu brautir þá höfum við horfið frá villustigunum en tekist að fylgja Guði og gera hið rétta!
Í tveimur af þremur textum dagsins er ljósið sameiginlegt þema. Jesaja er að fjalla um forsendur þess að ljós og dýrðarljómi Drottins fá upp runnið yfir Jerúsalem og forsendurnar eru þær að Ísraelsmenn hverfi frá villu síns vegar og snúi sér til Guðs.
Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús okkur til að varast myrkrið en ganga í ljósinu. Að sækjast eftir því gæti líka verið dæmi um guðlegan aga. Valkost sem við höfum ígrundað og veljum svo meðvitað. Við eigum þess
kost að bregðast við ljósi heimsins og gangast því á hönd. Leggja hinu góða lið með því hvernig við lifum og breytum.
En illskan leikur vissulega lausum hala í veröldinni og margt er á valdi illra afla. Illskan réð ferðinni þegar Kristur var dæmdur á krossinn og tekinn af lífi.
Og illskan getur hæglega læðst lævíslega að okkur öllum.
Freistingar eru sannarlega við hvert fótmál og það er ekki alltaf auðvelt að standast þær!
Víða í Biblíunni er Satan gerður að persónugervingi fyrir þau átök innra með manninum þegar hann stendur frammi fyrir valkostum sem geta leitt til góðs eða ills. Og þannig er kölski gerður að tákngervingi fyrir allt það sem Jesús er ekki.
Eitt af því sem dregur verulega úr styrk mannsins er óttinn. Óttinn er eins og syndin, lúrir við hvert fótmál og ræðst aftan að okkur mörgum.
Það virðist vera svo margt í nútímalífi sem dregur máttinn úr mönnunum og gerir okkur óttaslegin og jafnvel kvíðin.
Hinn forn-gríski heimspekingur Aristóteles var talsmaður meðalhófsins. Hann áleit að Dyggðir mannsins væru fólgnar í því að feta hinn gullna meðalveg á milli tveggja öfga. Þannig er hugrekkið meðalhófið á milli fífldirfsku og hugleysis.
Það er auðvitað ekkert skammarlegt við það að finna til ótta, en það er engu að síður mikilvægt að hafa hugrekki til að takast á við lífið, þrátt fyrir óttann.
Í guðspjalli dagsins segir Jesús: „Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu.“ Og þetta er einmitt mergurinn málsins. Að enda þótt Jesús upplifi ótta og angist þá mætir hann örlögum sínum af hugrekki.
Sannleikurinn er sá að við getum alið með okkur hugrekki. Við getum tekist á við hvers konar aðstæður endaþótt við séum áhyggjufull. Í því er raunverulegt hugrekki falið!
Í bókinni Dýralíf eftir Auði Övu Ólafsdóttur fjallar hún um frænkurnar og ljósmæðurnar Fíu og Díu.
Í bókinni spyr höfundurinn áleitinna spurninga um tilganginn með tilvist mannsins og einnig hver sé ábyrgð okkar mannanna á tímum hamfararhlýnunar.
Og þar er einnig fjallað um ljósið sem skín í myrkrinu.
Þetta myndmál Auðar Övu er afar kristið og kallast í raun á við orð Jesú um Ljós heimsins og ljós lífsins. Við þekkjum það öll að sumt fólk lýsir upp heiminn í kringum sig og gerir hann einfaldlega fallegri og betri.
Boðskapur þessa sunnudags hvetur okkur til að ala með okkur löngun til að vilja bæta heiminn sem við búum í, leggja lið og okkar lóð á vogarskálarnar. En vera á sama tíma gagnrýnin bæði á samfélagið sem við búum í og líka okkur sjálf og vera sífellt að endurskoða hið viðtekna. Því með heiðarlegri og sanngjarnri gagnrýni sköpum við líka góð skilyrði til að geta þroskast og tekið framförum og hlúum að samfélagi sem vill efla hið góða og fagra.
Það er mikilvægt verkefni að koma barni til manns. Það krefur okkur foreldra um utanumhald og aga. Agi er ekki valdbeiting heldur elskusöm festa sem horfir til framtíðar. Agi er ekki bara fyrir börn heldur líka fyrir fullorðna. Fastan hvetur okkur til þess að sjá föstuna sem þroskatækifæri. Megi þessi fasta sem framundan er efla og styrkja okkur hvert og eitt, sjálfum okkur og samfélaginu til blessunar.