3. sd. páskatímans
Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ísak Harðarson heitinn var eitt mesta trúarskáld í íslenskum nútíma og hann birti ljóðið Rithönd Guðs: Skrifað í rykið í ljóðabókinni Rennur upp um nótt árið 2009. Þar tjáir hann á mjög frumlegan hátt þann trúar- og mannskilning að manninum sé á einhvern hátt ætlað að vera hendur Guðs á jörðu. Hann yrkir svo:
Í hvítri kistu gluggans
liggja þrír pennar:
Blár
til að fanga himininn,
rauður
til að vekja ástríðuna,
svartur
til að yrkja dauðann.
Þrír pennar
- og eins og almættið sjálft
rétti ég út höndina eftir einum þeirra
en
heyri þá snöggan þyt risahandar
sem nálgast hratt og ákveðið
og skil í einni svipan
að sjálfur er ég penni
- að sjálfur er ég penni
sem forsjónin notar til að semja
mín eigin örlög og annarra!
Og sjá: Hún grípur mig
almáttkum fingrum, skrúfar
af mér lokið og ber
oddinn að pappírnum
- löðrandi hausinn að skráþurrum pappírnum!
Æ, GUÐ, LÁTTU MIG ÞÁ FREKAR SPÝTA
LJÓSI EN MYRKRI!
Og jafnvel þótt svo fari
að enginn lesi
- eins og tíðkast nú á tímum fársins –
láttu mig þá finna fró í því
að sjálfur sonur þinn
skrifaði fingri í rykið
eitthvað sem enginn las.
Í þessu ljóði setur skáldið fram þessa bæn: „Æ, Guð, láttu mig þá frekar spýta
Ljósi en myrkri!“
Með henni tjáir hann þann vilja sinn að verða til góðs frekar en ills, í samræmi við skilning sinn á vilja hins almáttka sem heldur á pennanum.
Ritningartextar dagsins fjalla líka um þann vilja Guðs að líf sérhvers manns verði til góðs, bæði fyrir hann eða hana sjálfa sem og samfélagið sem þau tilheyra. Og þeir eru jafnframt brýning til okkar, sem heyra, um að það er að miklu leyti á okkar valdi að svo verði – eða eins og Ísak yrkir:
sjálfur er ég penni
sem forsjónin notar til að semja
mín eigin örlög og annarra!
En það er ekki sjálfgefið að fólk segi sannleikann hvert við annað eða felli dóma af sanngirni
og velvilja eða ætli öðrum ekkert illt í hjarta sínu og felli sig ekki við meinsæri – eins og lexían talar um. Siðgæði og siðferði eru ekki náttúruleg fyrirbæri heldur menningarleg og félagsleg og þess vegna er nauðsynlegt fyrir sérhvert samfélag að eiga sér menningarlega, siðferðilega og trúarlega kjölfestu sem setur rammann um það sem er rétt og rangt í samfélagi og viðskiptum manna, eða, m.ö.o., stofn sem ber uppi greinarnar sem fyrir sitt leyti geta aðeins borið ávöxt ef þær nærast af lífsvökvanum sem stofninn flytur og miðlar – eins og Jesús segir í guðspjallinu.
Myndlíkingar á borð við vínviðarlíkinguna ganga yfirleitt aðeins upp að takmörkuðu leyti; það er einhver tiltekinn eiginleiki eða eiginleikar sem verið er að leggja áherslu á. Í vínviðarlíkingunni er brugðið upp sem andstæðum greinunum sem bera ávöxt og þeim sem bera ekki ávöxt. Þær sem ekki bera ávöxt sníður vínyrkinn af en snyrtir hinar til þess að hámarka ávöxt þeirra. Í upprunalegu félagslegu samhengi textans má ímynda sér að hér sé verið að höfða til samvisku safnaðarmeðlima í Jóhannesarsöfnuðinum en líkast til hafa þau verið misvirk í því að miðla fagnaðarerindinu í orði og verki. Það eru skýr dæmi í bréfum Páls um misklíð og deilur innan safnaðanna og ólíkar túlkanir og áherslur, sem Páli þóttu sumar hverjar stríða gegn hans eigin fagnaðarerindi um hinn krossfesta og upprisna Jesú, eða hegðun sem honum þótti grafa undan góðu siðferði og boðskap Krists um réttlæti og náungakærleika. Í vínviðarlíkingu Jóhannesar er ekki loku fyrir það skotið að greinarnar sem bera ekki ávöxt eigi að vísa til slíkra aðila í Jóhannesarsöfnuðinum.
En jafnvel greinarnar sem bera ávöxt þurfa umhirðu vínyrkjans til þess að hámarka ávöxt sinn og til þess að halda áfram að gefa af sér. Vínviðurinn er viðkvæm planta og þarfnast mikillar umönnunar og með því að líkja Jesú við vínvið og Guði við Vínyrkja er brugðið upp mynd af nánu sambandi Jesú og Guðs en hann er samt ekki greinarnar sem þarf að hreinsa. Í röklegu samhengi líkingarinnar er Jesús stofninn en fylgjendur hans greinarnar sem tengjast stofninum. Og greinarnar sem tengjast stofninum þarf að hreinsa af greinaskotum og vísum að berjaklösum sem er ofaukið. Hvort sem um ræðir greinarnar sem bera alls engan ávöxt eða hinar virðist því myndlíkingin fjalla um það að verk þeirra sem tilheyra kristnu samfélagi sýni hvort hugur þeirra og hjarta sæki að sönnu næringu sína í þá lind sem Jesús Kristur er eða hvort einhverjir aðrir kraftar og aðrir hagsmunir ráði för.
Þessi hugsun var eins og fyrr sagði Páli ofarlega í huga og seinna varð hún í raun kveikjan að siðbreytingunni einnig. Meðal þess sem Lúther og aðrir siðbótarmenn gagnrýndu var hvernig kirkjuyfirvöld í Róm og kardínálar og biskupar, ekki síst í þýsku furstadæmunum, misnotuðu trú almennings með því að selja fólki aflátsbréf í því skyni að afla fjár. Þar að auki gagnrýndu siðbótarmenn mjög veraldarvafstur biskupa sem voru stundum ekkert annað en veraldlegir furstar með biskupsmýtur sem þeir höfðu keypt fyrir offjár af páfastóli, án þess jafnvel að vera guðfræðimenntaðir eða vígðir áður. Þessi útbreiddi ósiður miðalda, að láta kirkuleg embætti ganga kaupum og sölum, er kallaður símoní eftir töframanninum Símoni sem reyndi að kaupa af postulunum valdið til að veita heilagan anda.
Ritningartextar dagsins eru okkur þannig þörf áminning um að höfuðerindi kristins manns í þessu lífi er stuðla að réttlæti, sanngirni, góðu siðferði og náungakærleika. Og þeir eru þörf áminning til kirkjunnar sem stofnunar og samfélags um að hennar erindi er að boða Krist, kristin gildi og kristið siðferði og að það geti farið illa ef hún verður vettvangur hagsmuna- eða valdabaráttu sem er ekki sæmandi kristnum boðskap eða siðferði.
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.